Að gefnu tilefni
- staðreyndir um bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og fall Sparisjóðsins í Keflavík
Í kjölfar endurvinnslu gamalla frétta af hruni Sparisjóðsins í Keflavík og frágangi á yfirtöku Landsbankans á Sparisjóðnum hafa að undanförnu spunnist upp alls kyns sögur og rangfærslur um málefni tengd Sparisjóðnum. Vissulega er rétt að fall Sparisjóðsins er samfélaginu dýrt – það er okkur löngu ljóst. Nú keppast menn hins vegar við að kenna hver öðrum um ástæðu þess mikla kostnaðar sem hrun sjóðsins leiðir af sér. Sem betur fer er verið að rannsaka þessi mál öll ofan í kjölinn og vonandi á sú rannsókn eftir að leiða í ljós hvað fór úrskeiðis ef það er ekki þegar ljóst. Heita má ljóst að mistök voru gerð á mistök ofan, fyrir og eftir hrun.
Ef einhver hefur áhuga á minni útgáfu af sannleikanum þangað til annað kemur í ljós, þá fer hér á eftir pistill frá undirrituðum sem leikmanni og áhorfanda í ýmsu því sem haldið hefur verið fram um menn og málefni tengd Sparisjóðnum. Þetta er ekki skrifað til að gera lítið úr því sem tapaðist við hrun Sparisjóðsins, öðru nær. Tilgangurinn er frekar sá að benda á staðreyndir og leiðrétta rangfærslur sem vísvitandi er haldið fram, líklega í pólitískum tilgangi. Þið sem nennið að lesa þetta getið dæmt hvert fyrir sig hvort allt sem þið lesið í DV eða heyrið á RÚV sé akkúrat eins og þar er haldið fram. Svo geta menn velt fyrir sér tilganginum með því að halda fram fullyrðingum sem augljóslega eru rangar.
Eitt af því sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í kringum Sparisjóðinn er hvernig sjálfstæðismenn – og þá sérstaklega bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og jafnvel núverandi framkvæmdastjóri flokksins – gengu um sjóðinn á skítugum skónum og ryksuguðu til sín þaðan fé að vild. Þeir sem um fjalla telja fólki trú um að þar sé að finna megin ástæðuna fyrir falli Sparisjóðsins. Þeir sem trúa því sem þeir heyra á RÚV og lesa í DV eru eðlilega miður sín og sumir ganga svo langt að biðja fólk afsökunar á því að hafa þekkt og unnið með þessum misyndismönnum. Allt er þetta gert í anda þess að axla ábyrgð og biðjast afsökunar á sínum þætti í hruninu. Mér er málið nokkuð skylt, hafandi verið einn af bæjarfulltrúum flokksins á árunum 2002-2010, og hafandi starfað í stjórn sjóðsins eftir hrun frá 2009-2010. Ég hef þokkalega yfirsýn yfir það hvernig bæjarfulltrúar tengdust Sparisjóðnum og hvernig hann var rekinn gagnvart mér sem viðskiptamanni frá blautu barnsbeini.
Það vita allir sem eitthvað komu nálægt Sparisjóðnum, eða áttu við hann viðskipti, að honum var STJÓRNAÐ af Sparisjóðsstjóranum. Ég segi það með stórum stöfum, því þannig var það. Hann hafði sér til halds og tausts starfsmenn í bankanum, sem höfðu takmarkaðar heimildir til útlána, en hann gat tekið sjálfstæðar ákvarðanir um lánveitingar sem námu allt að 15% af eigin fé sjóðsins eins og það var skráð á hverjum tíma. Þannig voru reglur sjóðsins og höfðu verið um árabil. Stjórn sjóðsins hafði í raun lítið með útlán sjóðsins að gera og kom að takmörkuðu leyti að ákvörðunum um útlán úr sjóðnum. Stjórn var hins vegar upplýst af Sparisjóðsstjóra um það hverjum var lánað og hverjir voru stærstu innlánseigendur sjóðsins á mánaðarlegum fundum. Þetta má að sjálfsögðu gagnrýna, og FME gerði það á árinu 2008! Þá hafði Sparisjóðnum verið stjórnað með þessum hætti í 101 ár og það bara með ágætum árangri lengi vel. Nú tæpum fjórum árum eftir að bankakerfið á Íslandi hrundi er auðvitað mjög auðvelt að sitja í dómarasæti og sjá allar vitleysurnar sem menn gerðu. Það sem er hins vegar verra er þegar misgóðir fréttamenn, með misgöfuga hagsmuni að leiðarljósi leggja upp í pólitíska vegferð til að reyna að gera menn, sjálfstæðismenn sérstaklega, að gerendum í falli Sparisjóðsins. Stóra myndin er auðvitað sú að Sparisjóðurinn féll vegna þess að bankakerfið á Íslandi hrundi. Ekki vegna þess að stjórnendur sjóðsins kusu Sjálfstæðisflokkinn, eða vegna þess að honum var stjórnað af bæjarfulltrúm flokksins. Annars má lesa ágæta greiningu á vanda Sparisjóðsins hér: http://mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1245120/
Ein af fullyrðingunum sem haldið er svo stíft fram, að hörðustu sjálfstæðismenn eru farnir að trúa þeim, er að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi farið að vild um Sparisjóðinn og úthlutað sér og sínum lánum þaðan! Þessar fullyrðingar eru fjarri öllum sannleika. Það þykir hins vegar til óþurftar á Íslandi í dag að skemma góða frétt með sannleikanum. Ég ætla samt að vera svo djarfur að upplýsa um viðskipti bæjarfulltrúa flokksins á árunum 2002-2010 eins og ég þekki þau. Það kann að vera að í einhverjum tilfellum gangi ég of langt, en þeir verða bara að eiga það við mig.
1. Árni Sigfússon – hann fékk eins og frægt er orðið erlent lán í Sparisjóðnum árið 2006 þegar hann byggði sér nýtt hús eins og fjölmargir aðrir gerðu á þeim tíma. Sömu reglur giltu um hann og alla aðra – ábyrgðir, húsið að veði o.s.frv. Þetta er allt löngu upplýst og þetta lán hefur að ég best veit verið meðhöndlað eins og önnur sambærileg lán og hefur aldrei verið í vanskilum. Um aðrar lánveitingar var ekki að ræða til Árna, engar tug eða hundruð milljóna í hlutafjárbrask eins og oft hefur verið haldið fram og engin sérstök fyrirgreiðsla til hans umfram aðra.
2. Böðvar Jónsson – er eftir því sem ég best veit í viðskiptum við Íslandsbanka – man aldrei eftir honum í neinum sérstökum málum sem við komu Sparisjóðnum. Hann stóð í einhverjum fasteignaviðskiptum í félagi við annan mann og tapaði örugglega á þeim eins og flestir aðrir. Þau viðskipti tengdust Sparisjóðnum ekki svo ég viti til, en ef þau gerðu það, þá hefur ekki verið um stórar upphæðir að ræða í því samhengi.
3. Þorsteinn Erlingsson – var stjórnarformaður í Sparisjóðnum árin fyrir hrun ásamt öðrum. Hlutverk þeirra var eins og lýst hefur verið hér að ofan. Eftir að FME gerði athugasemdir við starfshætti stjórnar, hafði Þorsteinn frumkvæði að því að breyta þeim í þá veru sem athugasemdirnar lutu að. Reynt hefur verið að gera tortryggilegt að Sparisjóðurinn greiddi fyrir flug Þorsteins frá Florida til Íslands og aftur til baka, þegar hann var kallaður heim úr sumarfríi skömmu eftir hrun til þess að mæta á krísufundi í stjórn sjóðsins. Það verður þó tæplega séð að manni sem kallaður er heim úr fríi til að sinna stjórnarsetu verði jafnframt gert að greiða ferðakostnaðinn sem af ferðinni hlýst!
Þorsteinn á Saltver ehf. sem er útgerðarfyrirtæki í Reykjanesbæ, eitt örfárra sem eftir standa. Þorsteinn hefur verið manna fremstur í flokki á undanförnum árum í því að reyna að stuðla að atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ. Hann hefur í þeirri viðleitni sinni keypt kvóta, byggt upp loðnuvinnslu í Helguvík o.fl. allt án lánveitinga frá Sparisjóðnum.
Þorsteinn lagði ásamt sex öðrum aðilum (einn af þeim var Sparisjóðurinn) til hlutafé (áhættufé) í félagið Suðurnesjamenn, samtals 700 milljónir. Félagið var upphaflega stofnað með það að markmiði að kaupa hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Það gekk ekki eftir eins og þekkt er. Hins vegar ákváðu þeir sem að félaginu stóðu að ráðast í það að kaupa hlut í Icebank, þar sem Sparisjóðurinn átti talsverða hagsmuni. Lánaði Sparisjóðurinn félaginu að ég best veit 1.500 milljónir til viðbótar við hlutaféð sem lagt hafði verið í félagið af eigendunum. Lánið var veitt af Sparisjóðsstjóra og var innan þeirra heimilda sem hann hafði. Vissulega er þetta gagnrýniverður gjörningur þegar horft er til baka. Hluthafarnir töpuðu allir því sem þeir höfðu lagt fram í félagið. Hlutafjárframlag Saltvers til kaupanna var að stórum hluta fjármagnað með láni frá Landsbankanum sem er viðskiptabanki fyrirtækisins, en fyrirtækið átti ekki í viðskiptum við Sparisjóðinn.
4. Sigríður Jóna Jóhannesdóttir – var alla tíð viðskiptavinur Sparisjóðsins, en umsvif hennar í viðskiptum við Sjóðinn takmörkuðust við dæmigerðan launareikning og rekstur heimilis hennar.
5. Björk Guðjónsdóttir – veit ekki hvort hún var í viðskiptum við Sparisjóðinn. Veit að hún stóð í víninnflutningi um tíma í félagi við annan, en veit ekki til þess að neinn hafi tapað á þeim viðskiptum nema hún sjálf.
6. Steinþór Jónsson – hefur einhverra hluta vegna fengið hvað duglegast á baukinn í DV, en eins og þjóðinni ætti að vera ljóst er 80% af því sem DV segir ósatt og hitt lygi! (þetta er svona álíka málefnaleg fullyrðing og umfjöllun þeirra um Steinþór).
Því er stöðugt haldið fram að Steinþór hafi setið í stjórn Sparisjóðsins. Það er rangt – hann reyndi mikið á sínum tíma til að komast þar í stjórn, en fékk ekki hljómgrunn fyrir því meðal stofnfjáreigenda. Vert er að hafa í huga að meðal stærstu stofnfjáreigenda sjóðsins voru Kaupfélag Suðurnesja, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Lífeyrissjóðurinn Festa auk hundruða einstaklinga í Reykjanesbæ, á Snæfellsnesi, í Húnaþingi og á Ströndum.
Því er haldið fram að Steinþór hafi tekið lán í Sparisjóðnum fyrir hundruðir milljóna og jafnvel milljarða. Steinþór tók mér afvitandi ekki nokkurt lán hjá Sparisjóðnum í Keflavík, vegna sín persónulega eða fyrirtækja sinna Hótel Keflavík og Ofnasmiðju Suðurnesja, hvað þá að þau hafi verið afskrifuð.
Því er haldið fram að Steinþór hafi verið höfuðpaurinn í Suðurnesjamönnum. Hann átti ekki hlut í félaginu og kom hvergi nálægt því.
Því er haldið fram að Steinþór hafi í gegnum Bergið ehf. fengið milljarða að láni hjá Sparisjóðnum í Keflavík til kaupa á hlutafé í Icebank. Hið rétta er að Steinþór lagði ásamt á annan tug fjárfesta, m.a. núverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins Jónmundi Grétarssyni, fram hlutafé (áhættufé) í Bergið ehf. sem keypti hlut í Icebank af Spron og Byr. Þessir bankar lánuðu Berginu að ég best veit 2/3 kaupverðs bréfanna í Icebank, 1/3 var eiginfjárframlag eigendanna. Steinþór átti nokkurn hlut í félaginu en Jónmundur átti 0,2% - eða 2/1000 hluta! Þessu fé töpuðu eigendurnir – einhverjum hundruðum milljóna. Í kröfuskiptum, sem ég kann ekki að skýra nánar, milli Sparisjóðsins og Spron og BYR eignaðist Sparisjóðurinn 370 milljónir af kröfunni á Bergið. Rannsóknin á Sparisjóðnum mun væntanlega leiða í ljós hvernig þetta átti sér stað – en staðreyndin er hins vegar klárlega sú að lánið var upphaflega seljendalán frá Spron og Byr, sem seldu hluti sína í Icebank á uppsprengdu verði til Steinþórs og viðskiptafélaga hans. Þeir fengu aldrei og leituðu aldrei eftir láni frá Sparisjóðnum í Keflavík vegna þessara viðskipta svo mér sé kunnugt.
Því er haldið fram að Steinþór hafi fengið hundruð milljóna afskrifaðar vegna hinna ýmsu fasteignafélaga. Hið rétta er að Steinþór fjárfesti í fasteignum með öðrum í Fasteignafélagi Suðurnesja – meðal eigenda þar var Sparisjóðurinn. Félagið átti eignir og eignarhaldsfélög um aðrar eignir m.a. Blikavelli 3. Þessi félög voru fjármögnuð með eiginfé að hluta og lánsfé að hluta, mest erlendum lánum. Það þekkja allir hvernig fór fyrir slíkum félögum. Þau fóru á hausinn. Eigendurnir töpuðu sínu og lánveitandinn hirti veðin sem stóðu að baki eignunum. Landsbankinn hefur með þessu móti eignast flestar þær eignir sem þessi félög áttu og eflaust afskrifað vegna erlendra lána sem á þeim hvíldu.
Því er haldið fram að Steinþór hafi fengið hundruð milljóna afskrifaðar í gegnum Base ehf. Steinþór átti í gegnum Hótel Keflavík 8% hlut í Base ásamt á annan tug annarra fjárfesta, m.a. Sparisjóðunum, ÍAV, N1 og fleiri. Félagið var stofnað utan um kaup á iðnaðarhúsnæði á gamla varnarsvæðinu. Sparisjóðurinn lánaði félaginu 130 milljónir gegn veði í eignunum. Base náði aldrei að klára kaupin á eignunum gagnvart Kadeco og fór á hausinn. Kadeco leysti aftur til sín eignirnar og greiddi upp veðin sem á eignunum hvíldu. Steinþór tapaði sínu hlutafjárframlagi eins og aðrir eigendur. Allt að einu má ýmislegt segja um fjárfestingar Steinþórs. Þær hafa augljóslega verið misgáfulegar, en það er enn þann dag í dag ekki glæpur að leggja fram hlutafé (áhættufé) í fyrirtæki. Menn sem það gera bera lögum samkvæmt takmarkaða ábyrgð í félaginu. Takmarkast ábyrgðin við það hlutafé sem þeir leggja fram til félagsins. Það sama gildir í því efni um Steinþór og aðra áhættufjárfesta. Nánar má lesa um hvernig þetta virkar hér: http://www.althingi.is/lagas/140a/1994138.html
7. Garðar K. Vilhjálmsson – undirritaður var viðskiptavinur Sparisjóðsins frá blautu barnsbeini eins og svo margir Keflvíkingar. Ég tók sæti í stjórn Sparisjóðsins eftir hrun árið 2009 þegar freista átti þess að halda lífi í Sjóðinum. Meðan ég sat í stjórn veitti Sparisjóðurinn engin ný útlán sem heitið gátu, enda eiginfjárhlutfall hans undir lögboðnum mörkum og sjóðurinn rekinn á undanþágu frá FME og undir eftirliti fulltrúa FME. Völd stjórnar sjóðsins á þessum tíma voru afar takmörkuð og starf sjóðsins þetta síðasta ár sem hann lifði snerist um að halda lausafé í sjóðnum frá degi til dags. Viðvarandi taprekstur var á sjóðnum og ljósara varð með hverjum deginum sem leið að honum yrði ekki bjargað. Það fór því svo á endanum að stjórnin hafði ekki annan kost en henda inn handklæðinu og binda endi á líf sjóðsins. Ég og félög mér tengd fengu fjölmörg lán í Sparisjóðnum gegnum tíðina. Lán sem eiga það öll sammerkt að hafa verið með fullum ábyrgðum, vera ýmist greidd upp að fullu eða í fullum skilum hjá þeim sem nú hefur eignast þau. Þær lánveitingar sem enn standa með einhverjum hætti eru eftirfarandi:
Árið 2006 fékk undirritaður húsnæðislán í Sparisjóðnum, sem nú hefur verið framselt Íbúðalánasjóði. Lánið var upphaflega 14 milljónir – stóð í 19,6 síðast þegar ég athugaði það.
n Einkahlutafélag mitt Bílaleigan Geysir var í viðskiptum við Sparisjóðinn, síðar Landsbankann, og er þar nú með eitt erlent lán upp á ríflega 150 þúsund evrur, auk ábyrgðar vegna City Star flugfélagsins upp á 20 þúsund pund sem við deilum um hvort sé í gildi eður ei. – Sú ábyrgð kemur þó Sparisjóðnum ekkert við. Lánið er að auki með persónulegri sjálfskuldarábyrgð undirritaðs og ábyrgðin er tryggð með innistæðu á lokuðum reikningi.
Einkahlutafélag mitt 520 ehf. átti á árinu 2007 viðskipti við Base ehf., sem áður var fjallað um. 520 ehf. keypti af Base eina skemmu á gamla varnarsvæðinu og lét gera hana í stand. Fyrir skemmuna greiddi 520 metverð í frágengnum fasteignaviðskiptum á svæðinu eða um 60 þús. kr pr. fermetra. Sparisjóðurinn lánaði 50 milljónir til kaupanna. Það lán er nú í eigu Landsbankans með veði í húsnæðinu auk persónulegrar ábyrgðar undirritaðs upp á 20 milljónir.
Að lokum, til að koma í veg fyrir allan misskilning, þá afskrifaði Landsbankinn erlent lán til undirritaðs vegna stofnfjárkaupa í Sparisjóðnum sem veitt var um áramótin 2007/2008 að upphæð um 800 þús ISK. Lánið var veitt af Lansbankanum en fellt niður eins og öll önnur sambærileg lán vegna stofnfjárkaupa í Sparisjóðnum.
Eins og sést á þessari upptalningu þá er ljóst að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ höfðu mismikla aðkomu að rekstri Sparisjóðsins. Einn bæjarfulltrúi sat í stjórn hans fyrir hrun og einn eftir hrun. Í stjórn sjóðsins sátu fimm einstaklingar á hverjum tíma. Þeir einstaklingar sem með mér sátu í meirihlutanum í Reykjanesbæ eru allt öldungisfólk. Ég skulda því ekkert og það skuldar mér ekki neitt. Það má eflaust álasa okkur fyrir margt en fall Sparisjóðsins verður ekki skrifað á okkur, eða Sjálfstæðisflokkinn, sérstaklega.
Lánveitingar til bæjarfulltrúa geta ekki með nokkru móti talist óeðlilegar miðað við umsvif hvers og eins í atvinnulífinu í bænum. Fullyrðingar um lánveitingar til bæjarfulltrúa eru meira og minna upplognar eða ósannar með öllu. Í þeim tilfellum þar sem lán voru veitt voru eðlilegar tryggingar að baki þeim miðað við það sem tíðkaðist í viðskiptum á þeim tíma.
Fall Sparisjóðsins er okkur Suðurnesjamönnum þungbært áfall og því miður mun það bitna á þjóðinni allri. Fall Sjóðsins er löngu ljós staðreynd og við breytum henni ekki sama hvað við æmtum og skræmtum. Það sem skiptir máli er að við stöndum saman í því að vinna okkur út úr því ástandi sem hér ríkir, horfum fram á veginn og leitum lausna. Það veit sá sem allt veit að hér eru tækifærin til að byggja upp og við eigum nægar auðlindir til að vinna upp það sem við töpuðum. Hættum að reyna að finna drauga í hverju horni og hættum að hlusta á neikvæða nöldurseggi sem ekkert vilja upp byggja en allt niður rífa. Umfram allt skora ég á fólk að trúa ekki gagnrýnislaust allri vitleysu sem það heyrir, eða les. Í bankahruninu töpuðu margir peningum. Sumir tapa eflaust ærunni, en enginn lífinu. Höfum í huga það sem skiptir máli – eins og Landrover menn segja: „One life – live it!“
Garðar Ketill Vilhjálmsson.