Að byggja sterk börn eða endurbyggja brotna menn
Fjöldi áreiðanlegra rannsókna í yfir 50 ár sýnir að erfðafræðilegir þættir eru tengdir áfengissýki. Börn áfengissjúklinga eru fjórum sinnum líklegri til að eiga síðar við áfengisvanda að stríða en börn annarra. Þetta þýðir samt ekki að öll börn áfengissjúklinga verði áfengisvanda að bráð. En helmingurinn gerir það. Þessar sláandi staðreyndir hljóta að vekja okkur til umhugsunar um leiðir til að ná betri árangri í forvörnum í þeirra þágu. Rannsóknir sýna jafnframt að það er afar mikilvægt að fagleg hjálp komi snemma til barna áfengissjúklinga til að forða þeim frá vanda síðar á lífsleiðinni. Annars er hætta á að börnin glími ekki aðeins sjálf við áfengissýki síðar heldur einnig óttatilfinningu, þunglyndi, árásargirni og jafnvel sjálfsmorðshegðun. Því er haldið fram að örin sem verða til við að alast upp á heimili alkóhólista grói illa. Jafnvel þótt slík börn vaxi upp sem ábyrgir foreldrar og afreksmenn, geta þau fundið til tilfinningalegrar einangrunar á efri árum.
Allt þetta á að segja okkur að það er meiri mannkærleikur að koma sem fyrst til hjálpar og það er einnig auðveldara og ódýrara fyrir samfélagið að byggja upp sterk börn en endurbyggja brotna karlmenn og konur. Við skulum taka höndum saman um að gera það.
Fáir vita að ríkið innheimtir sérstakt áfengisgjald af hverri seldri flösku í áfengisverslunum. Þetta gjald dró um 10,9 milljarða króna í ríkissjóð í fyrra og fer yfir 11 milljarða kr. á þessu ári. Það gefur nánast auga leið að þeir sem kaupa mest áfengi eru líklegastir til að vera áfengissjúklingar. Þeir eru að borga áfengisgjaldið.
En nýting á þessum 10,9 milljörðum kr. er ekki sérmerkt fyrir fólk í áfengisvanda eða aðstandendur þeirra. Úr því það er lagt á notendur, skulum við sameinast um að það verði í þágu varna fyrir þá sem mest hafa not fyrir það. Það eru börn alkóhólista og verst settu sjúklingarnir.
Mikil þekking er til um leiðir til að hjálpa börnum alkóhólista. SÁÁ samtökin hafa öðlast gríðarlega faglega reynslu og þekkingu á að fást við áfengissýki. Þar starfa sérfræðingar og áhugamenn saman að því að hjálpa áfengissjúklingum.
Félagsþjónusta og skólaþjónusta sveitarfélaga er víða vel þróuð og þekking á aðstæðum barna í samfélögum okkar er þar til staðar.
Með samstilltu átaki ríkis, sveitarfélaga og SÁÁ er hægt að byggja upp sterk börn í stað þess að heyja eingöngu þá erfiðu glímu að endurbyggja brotna menn. Fjármagn, þekking og fólk er greinilega til staðar.
Árni Sigfússon
bæjarstjóri.