Að búa sér hreiður
- Aðsend grein frá Ragnhildi L. Guðmundsdóttir
Húsnæðismarkaðurinn í Suðurkjördæmi er eins og víðast annars staðar hræðilegur. Fasteignafélög hafa sprottið upp og í eign fjárfesta sem líkast til áttu þátt í bankahruninu sem varð hér um árið. Þessir sömu aðilar virðast geta keypt upp endalausar eignir af íbúðalánasjóði eða bönkum sem hafa leyst til sín eignirnar fyrir slikk. Þessi leigufélög hækka svo stórum leiguverðið og halda verðinu uppi á meðan bankarnir t.d. vilja ekki leigja sitt húsnæði og þannig halda þeir við skorti á markaðinum sem veldur síhækkandi leiguverði sem almenningur hefur ekki ráð á að greiða ef yfirhöfuð eitthvað húsnæði er laust. Hvað gera stjórnvöld? Ekkert. Þeir koma fram með loforð um eitthvað sem á að gerast einhvern tímann, gerist á einhverjum árum og á meðan er fólk húsnæðislaust.
Börn verða að flytja búferlum oft á skólagöngu sinni, þurfa að fara í nýja skóla, kynnast nýju fólki og eignast nýja vini. Allar þessar breytingar á högum barna valda þeim kvíða og öðrum erfiðleikum og heilbrigðisþjónusta eins og geðlæknaþjónusta eða sálfræðiþjónusta tekur marga mánuði, biðlistar langir.
Sveitarfélögum ber skylda til, samkvæmt lögum, að sjá fólki, sem hefur lágar tekjur eða lífeyri sem dugir ekki fyrir almennu húsnæði, fyrir félagslegu húsnæði. Sveitarfélögin brjóta þessi lög daglega, útvega ekki því fólki sem þarf slíkt húsnæði, losnar ekki nema að fólk andist og losar þannig húsnæði. Hvað þarf til að sveitarfélög standi við lögbundnar skyldur sínar? Fólk ætti að geta lögsótt sveitarfélögin fyrir að standa ekki sína plikt. Á Suðurnesjum hafa 930 eignir verið teknar af fólki eftir hrun og virðist ekki lát á því. Þessar eignir eru svo seldar fjárfestum fyrir brot af markaðsvirði eignanna.
Dögun er umbótasinnaður flokkur sem vill koma á kerfisbreytingu, flokkur sem er lausnamiðaður. Dögun vill koma á Samfélagsbanka sem er viðskiptabanki að t.d. þýskri fyrirmynd en í Þýskalandi eru slíkir bankar, Sparkessen, með 40% af markaðnum. Þessir bankar eru viðskiptabankar sem standa ekki í áhættufjárfestingum, bankar sem lána fólki, litlum og meðalstórum fyrirtækjum fé á hóflegum vöxtum. Ef Samfélagsbankinn er með hagnað þá rennur hagnaðurinn til samfélagslegra verkefna en ekki í vasa áhættufjárfesta.
Dögun vill eitt almannatryggingakerfi þar sem lífeyrissjóðirnir eru sameinaðir. Það sem sparast við sameinað lífeyriskerfi getur dugað t.d. til þess að bjóða gjaldfría heilbrigðisþjónustu. Við erum ca. 340 þús. manna þjóðfélag sem væri hægt að koma fyrir í tveimur götum í New York og við erum með 26 lífeyrissjóði ... HALLÓ ! Flottræfilsháttur og sérhagsmunapot.
Dögun vill afnema verðtryggingu og gera fólki raunverulega mögulegt að búa sér sitt hreiður, hvort heldur séreign eða í gegnum leiguréttarfélög þ.e. húsnæðissamvinnufélög sem eru ekki hagnaðardrifin og fólk getur leigt til lengri tíma á hóflegri leigu.
Stöndum í alvöru með fólkinu í landinu en ekki taka stöðu með fjármálakerfinu sem gamblar með peningana. Þú hefur það í hendi þinni að gera breytingar með okkur á laugardaginn. Taktu skrefið með okkur, settu X við T.
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir 2. sæti
Dögun í Suðurkjördæmi