Að brenna rusl í bakgarðinum
Fréttablaðið birtir á forsíðu sinni nú í morgun frétt um að tilboð hafi borist um kaup á sorpeyðingarstöðinni Kölku. Kaupverðið er skv. fréttinni hið sama og skuldirnar sem á stöðinni hvíla. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar staðfestir að kauptilboðið sé til staðar, en vill ekki tjá sig frekar um málið. Kauptilboð sem renna átti út í dag hefur verið framlengt um nokkra daga. Á málið að renna í gegn án umræðu, þó ljóst sé að mörgum spurningum sé ósvarað?
Hve mikið á að brenna?
Af fréttinni að dæma hyggst fyrirtækið flytja inn iðnaðarsorp sem rúmast innan þeirra heimilda sem stöðin hefur í dag . Samkvæmt ársskýrslu Kölku er brennslugeta stöðvarinnar nú um það bil 12.800 tonn af úrgangi á ársgrundvelli en nýtingarhlutfallið hefur verið um 75%. Er hér verið að ræða um innflutning á 12.800 tonnum sem stöðin getur brennt í dag , eða þeim 3200 tonnum sem upp á vantar að stöðin sé fullnýtt? Hvort heldur er skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þá framtíðarsýn og lífsskilyrði sem íbúum á Suðurnesjum er ætlað að búa við.
Sé það svo að hið erlenda fyrirtæki hyggist nýta að fullu brennslugetu stöðvarinnar er ljóst að sveitarfélögin verða að finna aðra lausn á brennslu þess úrgangs sem þar er brenndur í dag. Hver verður kostnaður sveitarfélaganna og þeirra fyrirtækja sem nýta sé þjónustu Kölku í dag af því ? Það má öllum vera ljóst að gjaldskrá stöðvarinnar muni hækka sé tekið tillit til þess að gjaldskráin þurfi að standa undir flutningi á sorpi frá fyrirheitna landinu, sem nú vill brenna hættulegasta sorpið sitt annarsstaðar. Verður það okkur til hagsbóta?
Hvaða sorp er þetta?
Ekki kemur nákvæmlega fram í grein Fréttablaðsins hvaða sorp það er sem á að brenna. Sá farið inn á heimasíðu þess fyrirtækis sem lagt hefur fram tilboð í kaupin Triumvirate Environmental kemur í ljós að fyrirtækið sérhæfir sig í förgun hættulegra efna. Samrýmist sú förgun þeim heimildum sem Kalka hefur yfir að ráða í dag? Er af þessu sprengihætta? Geta eiturefni lekið út í andrúmsloftið eða jarðveginn. Er sanngjarnt gagnvart bæjarbúum að taka slíkt kauptilboð til umfjöllunar án þessa að allar hliðar málsins séu skýrðar. Getur bæjarstjórinn neitað að tjá sig frekar um málið þegar hann veit hvað undir liggur?
Hver er framtíðarsýnin?
Það virðist ljóst af þeirri frétt sem vitnað er til að kauptilboð þetta varð ekki til á einum degi. Það virðist að nokkru hafa verið unnið samhliða nýlegri framtíðarsýn meirihlutans í Reykjanesbæ. Þess bæjarfélags þar sem áhrifa sorpbrennslustöðvarinnar kemur til með að gæta hvað mest. Og ljóst virðist að helstu forsvarsmenn meirihlutans vissu um undirbúning tilboðsins . Ekki er þó eitt orð í framtíðarsýninni að finna um stórhuga uppbyggingu ruslahauga norðursins. Fylgja hér orð og efndir?
Bæjarfulltrúum og bæjarráðsmönnum í Reykjanesbæ má vera fullljóst að slík frétt sem hér er á ferðinni vekur ugg í brjóstum bæjarbúa. Enginn ekki einu sinni Bandaríkjamenn vilja láta brenna slíkt rusl í bakgarðinum hjá sér. Það er ábyrgð kjörinna fulltrúa eigendanna að kynna málið fyrir bæjarbúum. Við höfum brennt okkur áður, nægir þar að nefna sölu meirihlutans á Hitaveitu Suðurnesja forðum sem sannanlega hefur ekki orðið samfélaginu til hagsbóta. Viljum við brenna okkur aftur ? Er þetta ekki einmitt mál sem leggja ætti í dóm kjósenda með tilliti til þeirra áhrifa sem það hefur og í anda þess lýðræðis er framtíðarsýn meirihlutans boðar.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson.