Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að bera saman epli og appelsínur!
Mánudagur 6. júní 2005 kl. 09:13

Að bera saman epli og appelsínur!

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar hefur nú nýverið lokið fundarherferð með íbúum Reykjanesbæjar. Ég sat einn slíkan fund í Safnaðarheimilinu í Innri- Njarðvík. Þar fór bæjarstjórinn yfir fjármál sveitarfélagsins og bar m.a. saman skuldir pr. íbúa hér og í öðrum sveitarfélögum. Samkvæmt yfirferð hans komum við ágætlega út enda ekki sýndur nema hálfur sannleikurinn. Getur það talist eðlilegt að bera saman skuldir pr. íbúa án þess að skoða skuldbindingar sem liggja í rekstrarleigusamningum ? Er það sanngjarn samanburður að bera okkur saman við önnur sveitarfélög með þessum hætti vitandi vits að flest önnur sveitarfélög eiga sínar skólabyggingar, leikskóla, sundlaugar, íþróttahús og skulda mismunandi stóran hluta andvirðis þeirra. Það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að epli er ekki sama og appelsína. Sveitarfélag sem á sínar byggingar skuldar í flestum tilfellum einhvern hluta kostnaðarverðs þeirra sem reiknast þá sem skuld pr. íbúa í samanburðinum á meðan Reykjanesbær er búinn að selja allar sínar eignir og skuldar því ekkert í þeim samkvæmt upplýsingum bæjarstjórans.

Hvað segir Eftirlitsnefnd Sveitarfélaga um fjárhag Reykjanesbæjar?
Mikið af þeim byggingum sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins hér í bæ ákvað að selja og endurleigja til 30 ára án þess að eignarréttur flytjist til Reykjanesbæjar við lok leigutímans eru byggingar sem eru nauðsynlegar til þess að Sveitarfélagið geti annast þau verkefni sem því ber að sinna lögum samkvæmt. Það er alveg ljóst að Sveitarfélagið verður að hafa aðgang að grunnskólum fyrir börnin okkar eftir 30 ár. Reykjanesbær mun því þurfa að kaupa þessar eignir að 30 árum liðnum en það á ekki við um önnur sveitarfélög sem eiga flest öll sína skóla. Ég skil ekki hvernig fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ dettur það í hug að þeir komist upp með það að bera sig saman við önnur sveitarfélög með þeim hætti sem bæjarstjórinn hefur gert. Enn og aftur skora ég á meirihluta Sjálfstæðisflokksins að viðurkenna þetta sem skuld í stað þess að fela sig bak við „Barba-brellur“ við framsetningu ársreiknings sveitarfélagsins. Hvernig ársreikningurinn er settur fram er í meira lagi á gráu svæði og ljóst að bókhaldssérfræðingar hafa þurft að leggja verulega á sig til að fara ekki yfir strikið. Flokkun leigusamninga ræðst af því hvernig áhættu og ávinningi sem fylgir eignarhaldi eignarinnar er skipt milli leigutaka og leigusala. Mér sýnist á öllu að áhættan liggi nær öll hjá leigutaka í flestum leigusamningum sem Reykjanesbær hefur gert.

Eysteinn Jónsson
Formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024