Áætlun um hvernig þú nærð markmiðum þínum
Ég hef fengið mjög góð viðbrögð frá mörgum við markmiðapistlinum frá því í gær og vonandi að nú séu flestir sem lásu pistilinn búnir að setja sér markmið. En það er ekki nóg að setja sér háleit markmið heldur þarftu núna að gera áætlun um hvernig þú ætlar að ná markmiðum þínum. Það eru ekki bara við þjálfararnir sem þurfum að gera áætlanir eins og æfingaáætlanir og mataráætlanir heldur þarft ÞÚ, sá/sú sem ætlar að vinna alla vinnuna, líka að gera áætlun.
Ef þú hefur skrifað niður að markmiðið þitt sé að missa 10 kíló, hvernig ætlarðu þá að fara að því? Ætlarðu að bíða og vona að þú vaknir einn daginn 10 kílóum léttari eða ætlarðu að gera eitthvað í málinu? Vonandi áttarðu þig á að fyrri kosturinn er ekki vænlegur til árangurs svo ég ætla að gefa mér að þú veljir seinni kostinn. En þá þarftu að gera áætlun. Áætlun um það hvernig þú ætlar að taka þessi 10 kíló af þér. Það getur verið erfitt að setjast niður og skrifa niður áætlun sem á svo að fara eftir. En - Þegar þú hefur gert áætlun þá hefur þú leiðbeiningar sem hjálpa þér að halda áfram þegar hlutirnir eru ekki að ganga upp. "If you fail to plan, you’re planning to fail“. Þetta er ekki flókið, ef þú býr þér ekki til áætlun þá eru allt of miklar líkur á því villist af veginum og náir ekki markmiðum þínum. Hinsvegar ef þú skrifa áætlun þá ertu með skýra leið að markmiðunum og beinir allri orku þinni að þeim. Til þess að koma þér af stað hef ég sett upp nokkur skref sem eiga að auðvelda þér að skrifa upp þína áætlun. Ég skrifa þetta út frá því að markmiðið þitt sé fyrst og fremst að léttast en ef þitt markmið er allt annað þá lagarðu textann að því.
1. Þú verður að hafa markmiðin þín alveg á hreinu t.d. hvað ætlar þú að léttast mikið og hver á fituprósentan að verða.
2. Skrifaðu markmiðin þín niður og hafðu þau dagsett.
3. Taktu allar þær mælingar sem þú þarft að taka t.d. vigtun og ummálsmælingar. Þetta hjálpar þér að fylgjast með hvernig þér gengur.
4. Aflaðu þér upplýsinga um æfingar og mataræði.
5. Skrifaðu hvaða hreyfingu þú ætlar að stunda og á hvaða tímum.
6. Skrifaðu þær breytingar sem þú ætlar að gera á mataræðinu þínu.
7. Finndu allar þær hindranir sem eiga eftir að standa í vegi fyrir því að þú náir markmiðum þínum og skrifaðu þær niður. Ákveddu hvernig þú ætlar að bregðast við þegar þú kemur að hindrunum svo þær stoppi þig ekki.
8. Finndu fólk sem veitir þér stuðning.
Gangi þér vel
Helgi Jónas Guðfinnsson,
styrktarþjálfari, kennari við ÍAK einkaþjálfaranám Keilis og körfuknattleiksþjálfari
www.styrktarthjalfun.is *Nýtt Metabolic námskeið á Ásbrú hefst 17. október*
www.facebook.com/styrktarthjalfun