Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Á Sundhöllin sína bestu daga eftir?
Föstudagur 26. janúar 2018 kl. 16:48

Á Sundhöllin sína bestu daga eftir?

Eins og allir gamlir Keflvíkingar á ég góðar minningar úr Sundhöllinni við sjávarsíðuna og frá sundkennslunni þar á hrollköldum vetrarmorgnum. Korkur þræddur upp á brúnt leðurbelti og svo var ríghaldið í sundlaugarbakkann. Sundkennarinn gekk á milli nemenda og gaf dagskipunina: Beygja-kreppa-út-saman! Mér finnst enn eins og heitu pottarnir þar séu þeir bestu sem ég hef komið í.
 
Nú stöndum við frammi fyrir áleitinni spurningu um hvort rífa beri gömlu sundhöllina í Keflavík, þar sem hún stendur hátt með óhindrað útsýni til sjávar, og reisa þar fjölbýlishús. Góðar minningar einar og sér réttlæta ekki að haldið sé í það gamla. En það að eitthvað sé gamalt réttlætir heldur ekki eitt og sér að því sé fórnað. Langt er síðan ég kom inn í gömlu Sundhöllina enda hefur hún ekki þjónað upprunalegu hlutverki í fjöldamörg ár. Er það kannski hugsanavillan? Getur gömul sundhöll ekki þjónað íbúum áfram þótt önnur nýrri sé til staðar? Í miðborginni er enn starfandi gamla Sundhöll Reykjavíkur, sem er nokkurs konar systurbygging Sundhallarinnar í Keflavík enda báðar teiknaðar af Guðjóni Samúelssyni. Engum kæmi til hugar að rífa hana enda er þar iðandi samfélag manna á hverjum degi. Byggingin er borgarprýði og hefur marg sinnis verið notuð í alls myndatökur, bæði fyrir blöð og kvikmyndir. Fyrir nokkrum árum gerði Sjónvarpið sérstaka heimildamynd um mannlífið þar sem segir sitt um menningarverðmætin sem í húsinu liggja.
 
Ég tel að með endurgerð Sundhallarinnar í Keflavík, þar sem tekið er mið af upprunalegu útliti hússins, og viðbyggingum í stíl megi færa nýtt líf inn í þetta sögufræga hús. Auðvitað á gamla Sundhöllin að þjóna áfram sínu eiginlega hlutverki en í viðbyggingum mætti bjóða upp á heilsutengda þjónustu af öllum toga sem þjónar helstu kröfum samtímans. Opna mætti t.d. alveg á útsýnið út á hafið. Þá gætu gestir notið þess að horfa út á flóann, yfir á Bergið og allt til höfuðborgarsvæðisins um leið og þeir slaka á og spjalla í heitum pottum. Á veggjum mætti sjá glæsilegar ljósmyndir úr langri sögu Sundhallarinnar og um allt hús væru til sýnis munir úr ríkulegri íþróttasögu Keflavíkur. Samhliða væri mögulegt að reka á staðnum kaffihús eða lítinn veitingastað sem byði upp á græna og góða rétti og besta útsýnið í bænum. Þannig gæti þessi einstaka staðsetning þjónað áfram öllum almenningi og kallast skemmtilega á við sambærilega uppbyggingu gamla miðbæjarins í Keflavík.
 
Það liggja mikil verðmæti í gömlum húsum eftir okkar bestu byggingarmeistara. Þau eru klassísk, tímalaus hönnun sem kallar á að við endurmetum hlutverk og erindi þeirra við samtímann. Ég tel að í Sundhöll Keflavíkur geti verið að finna spennandi viðskiptatækifæri fyrir fjárfesta, ef ekki opinbera aðila. Íbúum bæjarins fjölgar stöðugt í þúsundavís og ferðamannastraumurinn eykst sömuleiðis. Allt kallar þetta á aukna þjónustu og áhugaverða valkosti. Fólk sækir fast í eitthvað sem er sérstakt, eitthvað sem er upprunalegt og á sér sögu. Tala nú ekki um ef það fær með í pakkanum fyrsta flokks þjónustu. Glæný frétt um metaðsókn í Sundhöll Reykjavíkur í mánaðarritinu Mannlífi sannar það. Þar kemur fram að tæplega 36 þúsund manns hafi sótt Sundhöll Reykjavíkur eftir endurbætur í desember síðastliðnum samanborið við níu þúsund manns í desember 2016.
 
Öll gömul hús hafa átt sín hnignunarskeið þar sem þau hafa mátt muna fífil sinn fegurri. Of mörg hafa horfið en þar sem ráðist hefur verið í endurgerð gamalla húsa veit ég ekki um einasta dæmi þar sem slíkt hefur leitt af sér eftirsjá. Hvaða Keflvíkingur þakkar ekki í dag fyrir að Biggi Guðna hafi bjargað Gömlu búð á ögurstundu? Hún var algjörlega niðurnídd ólíkt Sundhöllinni. Niðurrif hefur hins vegar margsinnis skilið eftir sig nagandi samviskubit og sár sem ekki grær, muniði Fjalaköttinn?
 
Gefum gömlu Sundhöllinni í Keflavík gálgafrest. Kannski á hún sína bestu daga eftir, eins og Sundhöll Reykjavíkur? Könnum möguleikana og gerum ekkert óafturkræft nema sem síðasta kost. Viðbrögð samfélagsins við hugsanlegu niðurrifi Sundhallarinnar í Keflavík gefa fullt tilefni til þess.
 
Guðfinnur Sigurvinsson.

 
Sundhöll Keflavíkur í upprunalegu útliti. Blaðaúrklippan með greininni er skjáskot úr mánaðarritinu Mannlífi.
Public deli
Public deli