A-Stöðin hækkar ekki verðskrá
– Mun bjóða uppá nýjung í akstri til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Í ljósi þeirra aðstæðna sem samfélag okkar er nú statt í, hefur A-Stöðin á Suðurnesjum ákveðið að hækka ekki taxta okkar leigubílstjóra að svo komnu máli. Frá árinu 2008 hefur A-Stöðin verið með undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu sem felur í sér að stöðin hefur heimild til þess að gefa út sameiginlegan hámarkstaxta og hafa bílstjórar þar af leiðandi einn taxta sem allir verða að vinna eftir.
Síðasta taxtabreyting A-Stöðvarinnar var gerð þann 1 febrúar 2013 og hefur sú hefð haldist að verðbreytingar hafi verðir gerðar þann dag ár hvert eða síðan 2010. Nú horfir svo við að ekki hefur verið hækkað þetta árið og ekki eru neinar fyrirætlanir um slíkt á næstunni. Þetta er okkar framlag til þess að halda aftur af aukinni verðþróun.
Aukinheldur ætlar A-Stöðin að brydda uppá nýjung sem koma mun Suðurnesjamönnum til góða. Þar er um að ræða að bjóða íbúum svæðisins ferðir að Flugstöðinni gegn föstu sanngjörnu gjaldi og einnig verður, með sömu hugmynd boðið uppá ferðir frá FLE til allra þéttisbýliskjarna á þessu svæði og verður það fyrirkomulag haft að farþegar hitta bílstjóra á tilteknum stað sem mætti kalla á íslensku fundarstað (e. meeting point) og einnig yrði í boði móttaka þar sem bílstjóri tekur á móti farþega þegar hann kemur úr tolli og inní komusal, sá háttur yrði að öllum líkindum dýrari.
Ástæðan fyrir því að A-Stöðin gengur í þessar fyrirætlanir er sú að farþegar sem þurft hafa að komast frá FLE til þéttbýliskjarna á svæðinu, sérstaklega Keflavíkur og Njarðvíkur hafa þurft að búa við það að mæta viðmóti leigubifreiðastjóra sem lýsir sér í fúllyndi og allt að því argasta dónaskap. Sé það ekki nóg er vert að benda á þá staðreynd að hjá bílstjórum sem starfa á stöðvum sem hafa höfuðstöðvar sínar í Reykjavík og hafa ekki undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu um sameiginlegan hámarkstaxta, má finna verð sem eru algjörlega úr takti við það sem sanngjarnt ætti að teljast. T.d. hefur heyrst að boðið sé uppá akstur til Keflavíkur á 5.500- kr. og er það tilboðsverð! Slík ferð kostar á bilinu tvö til þrjú þúsund krónur hjá A-Stöðinni. Staðfest er að sumir bílstjórar krefjist 3.000- kr startgjalds þegar farþegi vill fara í Reykjanesbæ, þegar eðlilegt stargjald er á bilinu sex til sjö hundruð krónur. Rétt er þó að taka fram að a.m.k. einn þessara aðila segist ekki láta mælinn ganga eftir að ferð hefst, hann láti þrjú þúsund krónurnar nægja.
Aðilar á Suðurnesjum sem standa að leigubílarekstri hafa ásamt fleiri atriðum bent á þennan órétt sem íbúar svæðisins hafa þurft að þola af hendi sumra leigubílstjóra, í athugasemdum við ný drög að lögum um fólksflutninga sem liggur fyrir í Innanríkisráðaneytinu. Þar er lagt til að svæðaskipting verði fest í lög þannig að leigubílstjórar af Höfuðborgarsvæðinu megi starfa á Suðurnesjum og öfugt. Einhverjir muna kannski eftir því að áður en svæðin voru sameinuð 2005 var aldrei krafist þess að farþegar greiddu hærra gjald en mælir sýndi, þó eflaust hafi mátt finna einn og einn bílstjóri sem sýndi fúllyndi, en það hefur þó aukist gríðarlega í seinni tíð.
Margir kannast við fyrirbrigði sem kallast „augnablik sannleikans“, en þar er í stórum dráttum átt við fyrstu kynni tveggja einstaklinga og má heimfæra það á fyrstu kynni ferðamanna af landi og þjóð. Ferðamenn sem hingað koma taka sumir leigubíl frá FLE, oft á Höfuðborgarsvæðið og oft styttra. Fyrsti einstaklingurinn sem ferðamaðurinn hittir eftir að komið er út úr FLE gæti því verið leigubílstjóri. Ættum við Suðurnesjabúar að sætta okkur við það að ferðamaður sem kemur til Íslands og tekur leigubíl til Reykjavíkur mæti hressum, skemmtilegum og glaðlyndum leigubílstjóra sem jafnvel gefur afslátt af mældu gjaldi eða leigubílstjóra sem ekki er ánægður með að viðkomandi ætli í Reykjanesbæ og hreitir í hann illyrðum, er með dónaskap og/eða krefst gjalds sem er mun hærra en eðilegt er? Ferðamaður sem kemur til Íslands, tekur leigubíl og ætlar einungis stutt, má ekki upplifa augnablik sannleikans með þessum hætti. Þetta eru ferðamenn sem við á Suðurnesjum eru að taka á móti við komu þess til landsins og við viljum ekki segja „velkomin“ á þennan hátt.
Það er með öllu óásættanlegt að fólk sem vill nýta sér þjónustu þá sem leigubifreiðastjórar bjóða, verði fyrir dónaskap og óhóflegri gjaldtöku einungis vegna þess að það er að fara stutta vegalengd, við því þarf að bregðast og eru þetta hugmyndir okkar til þess að slíkt fyrirfinnist ekki í stéttinni.
Með vinsemd.
Kjartan Valdimarsson.
Stj.form. A-Stöðvarinnar.