Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Á Hrafnista að reka Nesvelli?
Föstudagur 8. nóvember 2013 kl. 19:48

Á Hrafnista að reka Nesvelli?

- Geta Suðurnesjamenn ekki gert það?

Nýtt glæsilegt hjúkrunarheimili verður tekið í notkun á Nesvöllum á næsta ári, eitt 11 hjúkrunarheimila fyrir sjúka aldraða sem ríkistjórn jafnaðarmanna gekkst fyrir að byggð yrði um allt land á krepputímum. Ætla mætti að svo merkur áfangi í uppbyggingu þjónustu fyrir þá Suðurnesjamenn sem hafa skilað dagsverkinu og eiga skilið aðbúnað hinn besta ætti að vekja manni eintóma ánægju í brjósti en svo er ekki. Staðan er þvert á móti óljós og óviss og mikil hætta á að teknar verði illa ígrundaðar og afdrífaríkar ákvarðanir næstu vikurnar.

Suðurnesjamenn sterkari saman
Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum hvað varðar þjónustu við eldri borgara er í uppnámi sem er mjög alvarlegt og hamlandi fyrir frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þrátt fyrir tilkomu hins nýja hjúkrunarheimilis á Nesvöllum á nýju ári er uppsöfnuð þörf fyrir hjúkrunarrými fyrir sjúka aldraðra á Suðurnesjum slík að ekki má slá slöku við. Við Suðurnesjamenn verðum að standa saman að þeirri uppbyggingu. Okkur sveitarstjórnarmönnum ber skylda til þess að koma okkur saman um áherslur, markmið og leiðir og sækja saman á ríkisvaldið til þess tryggja okkar fólki þjónustu við hæfi. Ef við vinnum ekki saman þá náum við ekki að fjölga hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum – svo einfalt er það. En nýjustu skref sjálfstæðsmanna í Reykjanesbæ eru ekki til þess fallin að styrkja samstöðu Suðurnesjamanna né auka með manni bjartsýni um frekari uppbyggingu í málaflokknum.

Hrafnistusamningur hraðsamþykktur – naut HSS sannmælis?
Fimmtudaginn 7. nóvember samþykktu bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðismanna og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins að fela Sjómannadagsráði Reykjavíkur - sem rekur Hrafnistu – að reka hið nýja hjúkrunarheimili á Nesvöllum næstu 10 árin en ákveðið var í vor að leita hófanna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Hrafnistu um rekstur hjúkrunarheimilisins.  Friðjón Einarsson, bæjarráðsfulltrúi Samfylkingarinnar, mótmælti hraðri afgreiðslu málsins, fór fram á að málinu væri frestað um viku og sat hjá við afgreiðsluna á samingnum þegar frestun var hafnað. Það hve brátt lá á að samþykkja samninginn vekur upp spurningar.

Ég hef alla tíð verið þeirra skoðunnar að stjórn nærþjónustu eigi að vera heima í héraði, sem næst þeim sem hennar njóta. Þá er ég er fullviss um að á Suðurnesjum sé til staðar öll sú þekking, umhyggja og metnaður sem þarf til að reka fyrsta flokks hjúkrunaheimili og er þeirrar skoðunnar að við verðum að vernda störf á Suðurnesjum. Þá velti ég því fyrir mér – eftir að hafa lesið saminginn og ágæta grein frá starfsfólki HSS á vef Víkurfrétta – hvort leitað hafi verið saminga við HSS og Hrafnistu á sömu forsendum? Þá eru aðstæður breyttar á HSS frá því þegar leitað var til stofnunarinnar í vor, t.d. liggur fyrir að skera þurfi niður í rekstri HSS. Vegna alls þessa tel ég óráð að samþykkkja saminginn við Hrafnistu heldur eigi Reykjanesbær að leita aftur til HSS og athuga hvort stofnunin geti rekið hjúkrunarheimilið á Nesvöllum á sömu forsendum og Hrafnista.

Opinn fundur á Kaffi Duus á mánudagskvöld
Bæjarstjórn á síðasta orðið í þessu máli eins og öðrum og þar verður það tekið til rækilegrar skoðunar. Boðaður hefur verið til auka bæjarstjórnarfundar næsta þriðjudag svo hægt sé að ræða fjárhagsáætlun bæjarins 2014. Ég hef þó ekki trú á að svo mikið liggi á að samþykkja Hrafninstusaminginn að hann verði lagður fyrir þann fund.

Samfylkingin mun gera sitt til að upplýsa bæjarbúa um málið og reyna að hnika því í skynsamari farveg. Málið verður til umræðu á vikulegum laugardagsfundi okkar að Víkurbraut 13 við Keflavíkurhöfn kl. 10.00-12.00 og á opnum fundi sem haldinn verður á mánudagskvöld á Kaffi Duus. Allir velkomnir.

Eysteinn Eyjólfsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024