„Á hálum ís“
Í grein í VF þann 28. júní, kemur fyrrum formaður skólanefndar Gerðaskóla fram og talar um að undirritaður hafi í grein í Reykjanesi „skautað“ léttilega framhjá staðreyndum sem koma fram í skýrslu Menntamálaráðuneytis um úttekt á Gerðaskóla. Í stóru máli og langri grein er ekki hægt að ætlast til að undirritaður fari í gegnum hvert einasta atriði sem kom þar fram í skýrslunni, bæði það sem kalla má neikvætt og það sem kalla má jákvætt, heitt og kalt, svart og hvítt. Greinin fjallaði ekki aðallega um það heldur það hugarástand sem samfélagið var komið í.
Hins vegar hefur enginn starfsmaður skólans, mér vitanlega, þrætt fyrir það að Gerðaskóli sé laus við öll heimsins vandamál, langt í frá. Það sem ég benti á í grein minni sem birtist í Reykjanesi fyrir hálfum mánuði, tók ég fram að téður fyrrum formaður skólanefndar og meirihluti bæjarstjórnar, ákveða að reka skólastjóra, sem var að vinna vinnuna sína! Í tíð skólastjóra fór einelti úr 13% í 6% og rétt er að geta þess að í óformlegri könnun kennara skólans í vetur mældist einelti 5%. Það er samt of hátt en Guð má vita hvaða árangri hann hefði náð, hefði hann fengið frið til þess. Formaðurinn fyrrverandi kaus að „skauta“ framhjá þeirri staðreynd. Einnig kemur fram í sömu skýrslu að brottrekinn skólastjóri var mjög vinsæll meðal nemenda og starfsfólks og að hann lagði sig fram við það að fylgjast vel með nemendum og starfsfólki og að þeim liði almennt vel. Formaðurinn fyrrverandi kaus að „skauta“ fram hjá þeirri staðreynd. Af þeim sökum spurði ég mig þeirra spurninga í fyrra og í vetur: Hver var ástæðan fyrir því að reka skólastjóra sem sýndi það með óyggjandi hætti að starfsandi og líðan nemenda væri mjög góð í skólanum og hafði náð þessum árangri í eineltismálum? Spyr sá sem ekki veit, þrátt fyrir að kalla eftir þeim útskýringum.
Ekki ætla ég að efast um að ásetningur manna hafi verið að vinna í þessum málum, en ég taldi þá að aðferðafræðin væri röng og stend við það!
Ég spurði meirihluta bæjarstjórnar (bréflega) hvers vegna þeir fóru í þá aðför að skólanum á vordögum 2011, að fara að sameina skólana? Svörin voru á þá leið að það væri hagkvæmara þegar til lengri tíma er litið. Ok, rök út af fyrir sig en engin skýrsla eða úttekt lá fyrir því til sönnunar. Þegar bæjarbúar mótmæltu, var sú tillaga dregin til baka, bæði vegna andstöðu bæjarbúa og andstöðu innan meirihlutans! Það hefur komið fram áður í skrifum. Einmitt í þeirri orrahríð sem þá varð á milli manna, dró ég þá ályktun að eina ástæðan fyrir að sameina skólana væri að losna við skólastjórann og guð má vita hvaða skref bæjarstjórnin ætlaði sér að taka í kjölfarið. Það kom svo síðar í ljós með óyggjandi hætti!
Hins vegar tek ég undir áhyggjur fyrrum formanns skólanefndar um þá stöðu sem skólinn mælist í PISA könnun um læsi og árangur þó ég sjái ekki hvað „kúlulán“ og afskriftir þeirra komi Gerðaskóla við, en fyrrum formaður skólanefndar veit kannski meira um það, tek undir áhyggjur hans varðandi „vandræðagemlinga“ eins og hann kýs að kalla, en bendi á að sjaldan veldur einn þegar tveir deila, og tek undir þá skoðun að eigi skal undan líta! Til þess að sporna við þessari þróun er ekki rétta aðferðin að valsa fram með einhverri leiftursókn, þar sem leysa átti málin fyrir kl. 10, heldur ætti að vinna að lausn þessara mála með virðingu fyrir skólasamfélaginu og því góða fólki sem þar starfar og því frábæra unga fólki sem þar sækir vinnu sína, samvinnu með því m.a. að ráða til skólans sérkennara í íslensku og stærðfræði og leggja einnig áherslu á list-, tónmennt- og tæknigreinar, í stað þess að skera niður, og sjá svo árangurinn að einhverjum tíma liðnum. Því að árangur í skólastarfi mælist ekki í klukkustundum, heldur árum!
Hefði þessi leið verið farin þyrfti bærinn ekki að borga starfslokalaun fyrir skólastjóra og bæjarstjóra með ærnum tilkostnaði, því að með hluta af þeim peningum hefði verið hægt að skipuleggja hér gott skólastarf í virðingu, samvinnu og góðum árangri sem af því hlýst, í stað þess að setja sig í stellingar „við og þeir“. Það er orðin úldin aðferðafræði.
Svo óska ég nýráðnum skólastjóra velfarnaðar í starfi og vona að samfélagið gefi honum og starfsfólki svigrúm til að vinna í friði fyrir öfgum og óbilgirni.
Virðingarfyllst
Bragi Einarsson, Garðbúi.