Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Á flótta undan eigin verkum
Mánudagur 10. október 2005 kl. 18:57

Á flótta undan eigin verkum

Hjálmar Árnason alþingismaður hrekkur í kunnuglegan gír í svari sínu til mín hér á vef Víkurfrétta í gærkvöld. Hann reynir að drepa málinu á dreif með því að fjalla um gamalt spaug á internetinu og ljúga því til að þar hafi verið um hótun að ræða. Hjálmar veit betur, enda væri það svo að ég sæti með réttu sem dæmdur maður af dómstólum í dag, hefði ég sett fram slíka hryðjuverkahótun sem hann er að reynir að klína á mig með rógburði sínum. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Hjálmar verður uppvís að ósannindum. Það er til skjalfest að hann laug að kjósendum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Ég eftirlæt nú lesendum að dæma um málefnaleikann hjá framsóknarþingmanninum, alveg eins og þeir geta fellt sinn dóm yfir mér. Ég hef þó aldrei logið að kjósendum og hef aldrei sólundað skattpeningum kjósenda til einskis eins og gert var nú í þessum sameiningakosningum. Ég hef aldrei verið dæmdur fyrir neinar sakir, og er heldur ekki í neinu geðvonskukasti. Hið rétta er hins vegar að bæði ég og félagar mínir í þingflokki Frjálslynda flokksins mætum í fínu formi og mjög vel undirbúin til leiks nú á haustþingi, og hyggjumst ekki gefa tommu eftir í baráttu okkar fyrir réttlátara Íslandi þar sem fókusinn verður meðal annars settur á siðspillinguna í íslenskum stjórnmálum.

Í því síðastnefnda er af nógu að taka. Svar Hjálmars til mín felur einmitt í sér eina af skýringunum á því af hverju íslenskt stjórnmálaumhverfi og stórnsýsla er rotin. Á Íslandi þurfa embættismenn og stjórnmálamenn aldrei að bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Gerist eitthvað klúður eins nú með sameiningu sveitarfélaga, þá komast menn bara upp með að rífa kjaft. Hvergi örlar á sjálfsgagnrýni, heldur er reynt að klína sökinni á aðra. Ráðherrar sem skömmin stendur upp á fá ræðustól Alþingis óvænt til afnota í upphafi þingfundar til að ná frumkvæði í umræðunni. Á meðal helstu vopnabræður þeirra sem bera þunga ábyrgð sitja flissandi úti í þingsalnum, eins og mér er kunnugt um að Hjálmar Árnason formaður nefndarinnar sem stóð fyrir hinni misheppnuðu sameiningatilraun gerði í dag. Sjálfur er ég því miður ekki í stöðu til að kljást við Hjálmar og félaga í þingsal þar sem ég sinni skyldustörfum þessa daga sem fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York.

Hvers vegna vildu menn þessar kosningar? Var það ekki vegna þess að þeir töldu af einhverjum ástæðum þörf á því að sameina sveitafélögin? Ég veit ekki betur en að síðustu daga fyrir sameiningakosningarnar, hafi blöðin verið full af greinum þar sem menn voru nú að heita á fólk að kjósa rétt og með sameiningu. Hvert var hlutverk Hjálmars sem formaður þeirrar nefndar sem stóð fyrir framkvæmdinni? Er hann að segja okkur að hann beri enga ábyrgð? Að þessar niðurstöður séu enginn áfellisdómur yfir þeim sem hafa gengið hvað lengst í að sameina sveitafélögin? Hvers konar stjórnmálamenn eru það sem hegða sér með þessum hætti eftir að hafa tapað kosningum?

Annars er það nú frekar spaugilegt að sjá að ríkisstjórnarliðar reyna að verja þetta klúður með því að segja að hér sé komin niðurstaða af lýðræðislegu ferli og ekkert nema gott eitt um það að segja. Hvers vegna fékk Frjálslyndi flokkurinn sem starfar í umboði rúmlega 7 prósenta kjósenda á Alþingi enga aðkomu að þeirri vinnu sem kosið var um á laugardag? Af hverju slógu hinir lýðræðiselskandi Hjálmar og félagar á útrétta hönd okkar þegar við buðum okkar framlag?

Þetta er allt frekar sorglegt. Hjálmar Árnason og hinir í stjórnarliðinu sem nú gala um lýðræðislegt ferli eftir að hafa liðið eitt hroðalegasta kosningaafhroð sögunnar, eru þeir sömu og hikuðu ekki við að svíkja helgan þingmannaeið sinn við stjórnarskrána í maí árið 2004 með því að sjá til þess að neita þjóðinni um atkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Ég gef ekki grænan túskilding fyrir meinta lýðræðisást þessara manna.

Manhattan, New York 10. október.

Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður Frjálslynda flokksins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024