Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Á áramótum - Góð uppskera
Árni Sigfússon, Magnea Guðmundsdóttir, Böðvar Jónsson og Baldur Guðmundsson.
Mánudagur 16. janúar 2017 kl. 06:00

Á áramótum - Góð uppskera

- Aðsend grein frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ

Kæru bæjarbúar,

Við Sjálfstæðismenn höfðum forystu um uppbyggingu Reykjanesbæjar allt frá 1994 og í hreinum meirihluta frá 2002 til 2014. Erfið fjárhagsstaða þriggja sveitarfélaga; Hafna, Njarðvíkur og Keflavíkur var sterkasta drifhvötin fyrir sameiningu þessara sveitarfélaga árið 1994 í Reykjanesbæ. Niðurfelling aðstöðugjalds stórra fyrirtækja hafði tekið sinn toll og einnig áhrif af brotthvarfi stórra fiskiskipa af svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íbúar Reykjanesbæjar hafa þurft að berjast sjálfir fyrir hag sínum. Þess vegna getum við verið enn stoltari af þeim árangri sem hefur náðst í gjörbyltingu bæjarfélagsins, umhverfismálum, nýjum og bættum atvinnusvæðum, göngustígum, hreinni strandlengju, góðum leikskólum og grunnskólum, fræðslumiðstöðinni Keili, góðri aðstöðu fyrir eldri borgara, bæði félagsmiðstöð og hjúkrunarheimili, æskulýðsaðstöðu, nýjum íþróttamannvirkjum, menningarhúsum og nýjum íbúahverfum. Við vorum sannfærð um að með þessu móti myndum við skapa eftirsóknarvert samfélag sem myndi veita fjölbreytt og vel launuð störf, hækka laun íbúa, efla tekjur bæjarsjóðs til lengri tíma og vera í forystu grunnmenntunar. Slíku starfi er aldrei lokið, en vonandi getum við á sanngjarnan hátt metið að lyft hafi verið grettistaki til umbreytingar á bænum okkar. Reksturinn var og er hagkvæmur og allar fjárfestingar snéru að fjölbreyttari og sterkari innviðum. Margir íbúar eru nýir og þekkja ekki þær aðstæður sem við bjuggum við og þurftum að vinna okkur frá. Við bjóðum þá velkomna í nýtt og betra samfélag.

Þótt Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ séu langstærsta stjórnmálahreyfingin, höfum við síðustu tvö ár verið í minnihluta í bæjarstjórn en lagt okkur fram um að fylgja góðum málum eftir. Við höfðum og höfum óbifandi trú á samfélagi okkar og töldum að aðeins væri tímaspursmál hvenær tekjur færu að skila sér hjá öflugra og eftirsóknarverðara bæjarfélagi til að greiða niður fjárfestingarskuldir vegna mikilla umbótaverkefna.

Gott samstarf meirihluta og minnihluta!
Gott samstarf hefur verið á milli „meiri- og minnihluta“ síðustu tvö ár, sem einhverjum kann að virðast ógerningur í pólitík en er það ekki að okkar mati. Við höfum lagt áherslu á samstarf við þau þrjú framboð sem nú eru í meirihluta bæjarstjórnar um flest verkefni. Við vildum varðveita góðan árangur í skólamálum og halda áfram skynsamlegri uppbyggingu innviða. Það er fátt hvimleiðara en að ráðast gegn þeim sem eru í forsvari bara til að vera á móti. Þetta samstarf höfum við ræktað vegna þess að við vitum að hagkvæmni var gætt í rekstri bæjarfélagsins þegar við vorum við stjórnvölinn, eins og tölur sýna. En um leið erum við mjög sátt við það aðhald sem áfram hefur verið sýnt af núverandi meirihluta.

Þótt við höfum í einstaka málum haft aðra skoðun á þeim leiðum sem nýr meirihluti hefur farið höfum við ekki farið fram með þær skoðanir með hávaða eða látum. Þetta hefur einhverjum stuðningsmönnum okkar mislíkað. En við erum trú hugsjónum okkar. Við gerum alltaf það sem við teljum bænum fyrir bestu. Við höldum áfram að tala vel um bæinn okkar og vekja athygli á því sem vel er gert. Við trúum því, rétt eins og þegar við höfðum forystu, að vilji nýs meirihluta sé að vanda sig til góðra verka og við styðjum hann til þess. Við trúum því að þannig verði bærinn okkar áfram betri og að við höfum meiri áhrif á áframhaldandi jákvæða uppbyggingu, en með niðurrifstali.

Þau atriði sem við hefðum talið að reynsla okkar sýndi að gengi ekki upp í stefnu og framkvæmd nýs meirihluta, tengdust aðallega tveimur málum. Við vissum að kostnaður við rekstur bæjarins, stöðugildi og launakostnaður hefur ávallt verið með því lægsta sem gerist hjá sveitarfélögum á landinu. Þess vegna töldum við það ekki þjóna góðum tilgangi að segja öflugu starfsfólki upp á bæjarskrifstofum og ráða aðra til þeirra verka. Þetta olli óþarfa kostnaði við breytingarnar, tímabundnu hökti í þjónustu og olli mörgum fjölskyldum sárindum og erfiðleikum.

Þá höfðum við efasemdir um að hugmyndir um að hægt væri að fá rúma sex milljarða af skuldum bæjarins hreinlega fellda niður í stað þess að ná samningum um lægri vexti og betri kjör sem gætu leitt okkur hratt út úr skuldavanda. Nú liggur fyrir að sú leið meirihlutans var ekki fær og því er gengið til samninga í þá átt sem við töldum skynsamlegast að gera fyrir þremur árum. Þessi tími hefur vissulega verið kostnaðarsamur en við teljum jafnframt að það hafi verið þess virði að reyna þá lausn sem núverandi meirihluti vildi reyna og því erum við ekki með stórtækar upphrópanir þótt það hafi ekki gengið eftir. Hvers vegna ekki? Vegna þess að slíkar niðurfellingar hefðu óneitanlega stuðlað að enn betri stöðu bæjarfélagsins þó nú liggi fyrir að það hafi ekki gengið eftir.

Tölur sýna góðan rekstur
Samanburðartölur á milli sveitarfélaga sýna, svo ekki verður um villst, að Reykjanesbær hefur alltaf verið rekinn á hagkvæman hátt. Af tíu stærstu sveitarfélögunum hefur bærinn, allt frá árinu 2003, verið með lægsta eða næst lægsta hlutfall fjölda bæjarstarfsmanna á hvern íbúa og að sama skapi hefur launakostnaður bæjarstarfsmanna á hvern íbúa verið með því lægsta sem gerist hjá tíu stærstu sveitarfélögunum. Þrátt fyrir það hefur bærinn sinnt vandlega hlutverki sínu á erfiðum tímum við brotthvarf varnarliðsins og á tímum mesta atvinnuleysis á landinu. Við höfum unnið vel úr þeim takmörkuðu skatttekjum sem bærinn hefur haft vegna lágra meðallauna íbúa og keppt að því að hækka þessi meðallaun með betur launuðum störfum. Tölurnar eru einnig að sýna að það er að takast.

Sú mikla innviðauppbygging sem við fórum í á þessum tíma var lengur að skila sér til baka en við ætluðum. Við gerðum ekki ráð fyrir brotthvarfi varnarliðsins á sex mánuðum, sem talið er vera eitt stærsta áfall sem eitt sveitarfélag hefur gengið í gegnum. Þá kom efnahagshrunið sem jók verulega á þann vanda sem fyrir var. Fólk missti vinnuna og lykil fyrirtæki hurfu hvert af öðru. Ekkert varð úr fjárfestingum á nýjum tilbúnum atvinnusvæðum en gengistryggð lán að baki þeim mögnuðust.

Loksins uppskera!
En nú er breytt staða: Fólk vantar til starfa á Suðurnesjum og tekjur Reykjanesbæjar hafa vaxið jafnt og þétt á hverju ári. Á síðustu þremur árum hafa tekjur vaxið um vel á þriðja milljarð króna. Kostnaður eykst ekki að sama skapi því innviðir eru sterkir og alltaf er gætt kostnaðaraðhalds í rekstri. Þessi gríðarlega tekjuaukning hefur á skömmum tíma breytt fjárhagsviðmiðum bæjarins og haldið áfram að lækka skuldaviðmið sem sveitarfélögum er skylt að ná samkvæmt lögum. Frá 2009 hefur skuldaviðmið bæjarsjóðs lækkað úr 396% í 161% og hjá samstæðu Reykjanesbæjar úr 446% í 194%.
Þá munar mjög miklu fyrir bæinn að um leið og atvinnuleysið hverfur, dregst fjárhagsaðstoð til einstaklinga og fjölskyldna saman, sem er eitt af skylduverkefnum sveitarfélaga og því afar mikilvægt að aukin atvinna hafi losað bæjarfélagið undan verulegum  kostnaði.
Þrátt fyrir landsþekktan árangur í fræðslumálum, hefur kostnaður við þennan lang stærsta málaflokk Reykjanesbæjar undanfarin tíu ár einnig verið á meðal hins lægsta á meðal sveitarfélaganna.

28% komnir með háskólamenntun
Menntastaða samfélags okkar hefur einnig þróast á jákvæðan hátt. Leik- og grunnskólar eru í hópi bestu skóla á landinu. Nýjar tölur sýna að með FS, tilkomu menntastofnunarinnar Keilis og breyttrar íbúasamsetningar eru 28% íbúa komnir með háskólamenntun. Það samsvarar loksins landsmeðaltalinu en við vorum verulega langt undir því. Þá er afar ánægjulegt að hátt hlutfall íbúa, eða 18%, hefur iðnmenntun sem hörgull er orðinn á hér á landi.

Uppskerum áfram
Bjartir tímar virðast vera framundan, miðað við allar spár um aukningu í flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli og ný atvinnuverkefni. En aðstæður geta breyst hratt og því er mikilvægt að viðhalda fjölbreytni í atvinnugerðum, hafa atvinnustoðirnar margrar og ólíkar.
Reykjanesbær er fjölmenningarlegt samfélag þar sem hátt hlutfall íbúa er af erlendu bergi brotinn. Skólasamfélagið þarf áfram að standa með börnunum og gera þeim fært að standa jafnfætis íslenskumælandi börnum til framtíðar.

Nú í upphafi þessa árs hefur gengið í gegn sala á eignum varnarliðsins, sem skilar ríkinu 10 milljörðum króna í hagnað. Reykjanesbær lagði mikið í sölurnar til að mæta gríðarlegu atvinnutapi hundruða fjölskyldna, stuðla að enduruppbyggingu að Ásbrú sem frumkvöðlasamfélags, með tveimur leikskólum, grunnskóla og bættu umhverfi gatna og göngustíga. Nú er mikilvægt að bæjaryfirvöld nái því fram að þessi hreini hagnaður ríkisins af sölu eigna varnarliðsins fari í uppbyggingu innviða hér á svæðinu; samgöngukerfis á milli Ásbrúar og annarra bæjarhluta, tvöföldun Reykjanesbrautar og almenna styrkingu innviða, svo sem heilsugæslu og löggæslu, vegna örrar atvinnu- og farþegaþróunar á Keflavíkurflugvelli.

Kæru bæjarbúar,
Við munum áfram vinna skynsamlega í þágu ykkar, hvort sem við erum í meirihluta eða minnihluta. Við bjóðum samstarf um öll mál sem stuðla að betra samfélagi.

Gleðilegt nýtt ár.

Árni Sigfússon
Magnea Guðmundsdóttir
Böðvar Jónsson
Baldur Guðmundsson