80 manns á Vinajólum Hjálpræðishersins
Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ þakkar fyrir veittan stuðning á aðventunni og um jólin 2011. „Jólapottur Hjálpræðishersins" var staðsettur í Bónus og Nettó á aðventunni og söfnuðust þar um 350.000 kr. Alls safnaðist þó um ein miljón króna þessi jól til styrktar Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ. Af innsöfnuðum peningum voru 100.000 kr. gefnar áfram til Velferðarsjóðs Suðurnesja.
Jólastarf Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ hófst með glæsilegum tónleikum í Andrews, fyrsta sunnudag í aðventu þar sem margir þjóðþekktir tónlistamenn ásamt barnakór Hersins tóku þátt. Stefnt er að því að gera tónleika sem þessa að árlegum viðburði í starfinu.
Hjálpræðisherinn var í samstarfi við Velferðasjóð Suðurnesja og Hjálparstarf Kirkjunnar um jólaúthlutun og sá Hjálpræðisherinn um að miðla áfram jólagjöfum til um 150 barna á Suðurnesjum.
Metaðsókn var einnig á „Vinajólum“, jólahaldi Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ á aðfangadagskveldi jóla, en um 80 manns frá 22 þjóðernum tóku þar þátt. Í boði var þriggja rétta hátíðarmatur, fjölbreytt tónlistardagskrá, dans í kringum jólatréð og jólasveinn mætti á svæðið með gjafir handa öllum þannig að enginn fór tómhentur heim.
Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ þakkar öllum þeim sem stutt hafa við starfið og óskar landsmönnum öllum Guðs blessunar á nýju ári.