749 starfsmönnum Reykjanesbæjar sagt upp
Í grein sem birtist 7. nóv. á Vf segir Davíð Jón Kristjánsson: „Í gær fékk ég ásamt 749 öðrum starfsmönnum Reykjanesbæjar eiginlegt uppsagnarbréf sent í tölvupósti. En í bréfinu er okkur tilkynnt að af okkur séu teknar allar sporslur þ.e. bílastyrkur og næturvinna. Bréfið var undirritað af Friðjóni Einarssyni fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar…“
Í bréfinu frá Friðjóni kemur ekkert annað fram en að samningar um fasta yfirvinnu og bílafnot verði sagt upp og þess í stað verði yfirvinna og bílafnot greidd á hefðbundinn hátt þ.e. með stimpli frá næsta yfirmanni. Ég er kennari í Reykjanesbæ og við kennarar höfum enga yfirvinnu aðra en þá sem skólastjórinn okkar felur okkur og ég sé á bréfi Friðjóns að það kerfi á að taka upp gagnvart ökkum starfsmönnum Reykjanesbæjar. Fínt!
Einnig kemur fram í umræddri grein að laun Davíðs Jóns séu einungis 270 þúsund á mánuði og ég skil hann þannig að því sé eðlilegt að hann hafi fasta yfirvinnu og aksturspeninga vegna lágra launa sinna. Hvað margir starfsmenn Reykjanesbæjar hafa sömu laun og lægri? Hafa þeir allir fasta yfirvinnu og bílafnot án dagbókar eins og Davíð? Það er allavega þannig að tugir samstarfsmanna minna hafa lægri laun og engar sporslur og ég held að verulegur hluti bæjarstarfsmanna sé með fremur lág laun og fá engar yfirborganir eða yfirvinnu.
Í greininni rekur höfundurinn skuggahliðar starfs síns með hælisleitendum í Reykjanesbæ. Mér brá við að lesa þetta og fljótlega hugsaði ég: Hvað yrði gert við kennara sem skrifaðu svipað um neikvæðustu hliðar kennarastarfsins? Eða starfsmenn barnaverndar? Lögreglu? Við umönnun fatlaðra? Ég hygg að við fengjum áminningu enda mikilvægt að bregðast ekki trúnaði skjólstæðinga okkar né að persónugera starf okkar á þennan hátt. Eðlilega, því ábyrgð og trúnaður er mjög nauðsynlegur í öllum umönnunarstörfum svo ekki sé talað um störf með þeim sem minna mega sín. All annað mál er að tala um álag í starfi og að störf séu krefjandi. Hvaða störf hjá Reykjanesbæ eru það ekki?
Ég sé í niðurlagi greinar Davíðs að hann er ánægður með þá sem sitja nú hjá (eða vinna gegn) í vinnu bæjarráðs Reykjanesbæjar að því að bjarga sveitarfélaginu okkar frá sömu örlögum og Álftanes. Getur verið að greinarhöfundur og fleiri hér í bænum, geri sér ekki grein fyrir að í haust stóð til að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga „yfirtæki“ fjármál bæjarins? Telja margir það óþarfa að endurskoða fjármálin og draga úr kostnaði hjá Reykjanesbæ? Sem vilja hadla áfram á þeirri braut sem endaði í inni á borði Eftirlitsnefndarinnar? Sem skilja ekki hversvegna þetta fór svona og kenna því fólki um sem myndaði meirihluta fyrir fimm mánuðum?
Unnur G. Kristjánsdóttir,
grunnskólakennari.