Aðsent

Laugardagur 19. apríl 2003 kl. 00:08

500 milljónir í Manngildissjóð sýndarmennska?

Nýr manngildissjóður Reykjanesbæjar var talsvert til umræðu á síðasta fundi bæjarsjórnar Reykjanesbæjar nú fyrir páska. Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd minnihlutans og meirihlutinn svaraði með annarri bókun um málið:Þegar bærinn leggur inn fasteignir fyrir kr. 3.5 milljarða í Eignarhaldsfélagið Fasteign h.f losnar um fjármagn sem við teljum að best sé að nota til að greiða niður lán bæjarins. Þannig munu haldast í hendur minni eign bæjarins og samsvarandi minnkun skulda að því undanskildu að 525 milljónir fara sem hlutafé Reykjanesbæjar í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf.
Með því að leggja 500 milljónir í sjóð og nota vextina af þeirri upphæð til að sinna hlutverki Manngildissjóðs er í raun verið að fresta niðurgreiðslu lána sem nemur kr. 500 milljónum með tilheyrandi fjármagnskostnaði. Því er það í raun bærinn sem á ári hverju leggur fram þessa fjárhæð. Við teljum því eðlilegra að fjárveiting til Manngildissjóðs verið tekin til afgreiðslu og samþykkt við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert.
Ætlan Sjálfstæðismanna, að leggja kr. 500 milljónir í Manngildissjóð þar sem höfuðstóllinn ásamt verðtryggingu verði ávaxtaður og raunávöxtun hvers árs nýtt sem úthlutunarfé sjóðsins, er því lítið annað en sýndarmennska.

Jóhann Geirdal, Sveindís Valdimarsdóttir,
Guðbrandur Einarsson, Ólafur Thordersen og Kjartan M. Kjartansson.

Til máls tók Böðvar Jónsson er lagði fram eftirfarandi bókun:
Bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna Manngildissjóðs

Manngildissjóður er stofnaður með það að markmiði að veita stuðning við sértæk verkefni á sviði fræðslu, íþrótta, lista, tómstunda, félagsþjónustu, umhverfisverndar og fjölskyldu- og forvarnarmála. Með 500 millj. kr. stofnfé sem stefnt er að því að ávaxta í Sparisjóðnum í Keflavík, með 6,2% raunávöxtun, verður raunávöxtunin nýtt í margvísleg verkefni Manngildissjóðs í samræmi við ákvarðanir sviða hverju sinni.
Meðal mikilvægra verkefna á þessu ári sem sjálfstæðismenn í bæjarstjórn telja brýnt að fylgja eftir í gegnum Manngildissjóð er öflugt starf grunnskóla og leikskóla, s.s. lestrarmenningarverkefni, heilsdagsskóli, átaksverkefni í einstaka námsgreinum og að brúa bilið á milli skólastiga. Einnig ber að leggja áherslu á þjálfun yngstu aldurshópa í íþróttum og styðja við aukna fagmennsku í starfi tómstunda- og íþróttafélaga. Þá gefur Manngildissjóður ný tækifæri til stuðnings rannsóknarvinnu í félags- fjölskyldu- og forvarnarmálum.
Fjármunum vegna breytinga á eignarformi fasteigna Reykjanesbæjar er að stærstum hluta varið til niðurgreiðslu lána. Nú er unnið að því að greiða niður 1500 milljónir króna af langtímalánum, 455 milljónir kr. af skammtímalánum.

Böðvar Jónsson, Árni Sigfússon, Björk Guðjónsdóttir,
Garðar K. Vilhjálmsson og Sigríður J. Jóhannesdóttir.