500 fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar
Í morgun var 500 fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar haldinn í fundarherbergi bæjarráðs á bæjarskrifstofum Reykjanesbæjar og var létt í mönnum hljóðið. Í tilefni dagsins var boðið upp á snittur og meðlæti, auk þess sem bæjarráðsmenn fengu kaffikönnur merktar viðkomandi. Böðvar Jónsson formaður bæjarráðs sagði í samtali við Víkurfréttir að engin sérstök hátíðardagskrá yrði á fundinum. „Við förum í gegnum ýmis mál, en fundir bæjarráðs eru fjölbreyttir. Við höfum venjulega ekki meðlæti með á fundum þannig að kaffibrauðið gefur þessum áfanga skemmtilegan blæ.“ Fyrsti fundur bæjarráðs var haldinn um miðjan júní árið 1994. Má gera ráð fyrir að 1000 fundur ráðsins verði haldinn árið 2013.
VF-ljósmynd/JKK: Bæjarráðsmenn voru glaðir í bragði á fundinum í morgun. Frá vinstri: Kjartan Már Kjartansson, Ólafur Thordersen, Jóhann Geirdal, Hjörtur Zakaríasson bæjarritari, Böðvar Jónsson formaður, Árni Sigfússon bæjarstjóri, Björk Guðjónsdóttir og Steinþór Jónsson.