„5 Crazy things to do in Reykjanesbær“
Reykjanesbær er dyragætt Íslands. Farþegar sem koma til landsins á hverju ári eru um 2,5 milljónir og enn fleiri ef taldir eru með þeir farþegar sem hafa eingöngu viðdvöl hérna meðan þeir bíða eftir tengiflugi. Þarna liggja fjölmög tækifæri, ekki síst í ljósi þess að spáð er gríðarlegri farþegaaukningu á næstu árum, sem Reykjanesbær getur stutt við í samstarfi við þjónustuaðila á svæðinu. Við þurfum að nýta þetta tækifæri eins vel og kostur er.
Þjónustuaðilar á svæðinu þurfa að vinna vel saman í að bjóða uppá heildarlausnir fyrir ferðamenn. Bærinn, í gegnum Markaðsstofu Reykjaness, gæti svo boðið uppá sérfræðiráðgjöf og stuðning varðandi t.d. markaðssetningu, fjárhagsáætlun o.þ.h.
Ein hugmynd að slíkri heildarlausn gæti verið að setja saman 2-4 klukkutíma hringferð um bæinn undir yfirskrift í ætt við „5 Crazy things to do in Reykjanesbær“. Þetta gæti höfðað jafnt til ferðamanna sem hafa hér skamma viðdvöl með millilendingu eða dvelja lengur. Ferðin gæti hafist í Víkingaheimum þar sem tæki á móti þeim „alvöru íslenskur víkingur“. Ferðamenn klæddu sig upp og fengju mynd af sér að skylmast við víkinginn um borð í alvöru víkingaskipi. Þaðan væri ferðinni heitið í Hljómahöllina þar sem gestir fengju að spreyta sig á að syngja eða spila inná upptöku með íslenskri hljómsveit. Rib Safari í grófinni, sjósund og ferðinni lokið með alíslenskum Villaborgara og Kókómjólk.
Þetta eru auðvitað bara örfá dæmi um hverju væri hægt að pakka saman sem heildarlausn. Hægt væri að búa til nokkra pakka með mismunandi afþreyingu eftir þeim tíma sem ferðamenn hafa. Við búum svo vel að eiga fjölmörg starfandi ferðaþjónustufyrirtæki í bænum sem geta tekið höndum saman og styrkt við hvort annað.
Það er meðbyr með ferðaþjónustunni í Reykjanesbæ en Hótel Keflavík var um daginn valið eitt af 10 bestu hótelum á Íslandi og Hótel Berg var nefnt það rómantískasta á landinu hjá Trip Advisor.
Þetta eru bara tvö dæmi um einkaaðila sem eru að vinna frábært verk fyrir ferðaþjónustuna og yfirvöld í bænum þurfa að styðja við þessa uppbyggingu í samráði við þjónustuaðila í greininni.
Jóhann Snorri Sigurbergsson
Höfundur býður sig fram í 5.-6. Sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna 1. mars næstkomandi.