Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

3ja ára áætlun Garðs 2007-2009. - Greinargerð bæjarstjóra með áætluninni
Miðvikudagur 1. mars 2006 kl. 21:19

3ja ára áætlun Garðs 2007-2009. - Greinargerð bæjarstjóra með áætluninni

Þriggja ára áætlun Sveitarfélagsins er lögð fram á fundi Bæjarstjórnar Garðs þann 1.mars 2006. Áætlunin er stefnumarkandi hvað varðar álagningu gjalda, þjónustustig og á hvaða framkvæmdir er stefnt næstu árin. Rétt er að vekja athygli á því að áætlunin er endurskoðuð árlega, þannig að við gerð hverrar fjárhagsáætlunar er tekin afstaða fyrir sérhvert ár og geta þannig áherslur breyst.Einnig er ný 3ja ára áætlun lögð fram á hverju ári.
Þessi áætlun ber það með sér að það er kraftur í sveitarfélaginu Garði.Bæjaryfirvöld hafa mikinn metnað til að sveitarfélagið geti eflst sem mest.Íbúum fer jafnt og þétt fjölgandi, þannig fjölgaði íbúum á síðasta ári um 4% og eru nú 1376 miðað við 1.des.s.l. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að sama þróun eigi sér stað áfram og er miðað við 4% fjölgun íbúa í áætluninni.


Allar tekjur og rekstrargjöld eru sett fram á föstu verðlagi. Vegna fjölgunar íbúa er gert ráð fyrir 4 % hækkun tekna og tillit tekið til fjölgunar í útgjöldum þar sem það á við eins og t.d. í Gerðaskóla.


Vegna fjölgunar íbúðarhúsnæðis og vegna annarra bygginga er gert ráð fyrir 5% aukningu tekna vegna fasteignagjalda.
Sú stefna hefur verið hér í Garði að stilla álögum á íbúana eins mikið í hóf og frekast er kostur. Gert er ráð fyrir að sú stefna verði ríkjandi áfram, þótt að sjálfsögðu þurfi að taka ákvörðun um gjaldastefnu við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni.


Sveitarfélagið hefur á síðustu árum verið jafnt og þétt að auka við þjónustuna íbúum til heilla.
Viðbygging við leikskólann verður tekin í notkun í sumar. Þá verður hægt að auka mjög framboð á heilsdagsplássum. Öll starfsaðstaða mun batna mjög við þessa aukningu á húsnæði.


Nýbúið er að samþykkja að stefna að því að auka niðurgreiðslur með skólamáltíðum í Gerðaskóla, þannig að frá og með 1.sept. 2008 fá allir nemendur skólans ókeypis skólamáltíðir. Garður mun vera fyrsta sveitarfélagið sem tekur slíka ákvörðun. Foreldrar og forystufólk í skólastarfi hlýtur að fagna mjög þessari ákvörðun bæjaryfirvalda.
Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir að fjölga þurfi bekkjardeildum vegna fjölgunar nemenda.


Fræðslumálin er langstærsti útgjaldaliðurinn. Í málaflokkinn fara 50% af öllum tekjum sveitarfélagsins. Á síðustu árum hefur orðið gífurleg breyting til hins betra  á allri aðstöðu bæði fyrir nemendur og annað starfsfólk í leikskóla og grunnskóla.
Bæjarstjórn hefur staðið einhuga um þá stefnu að láta fræðslumálin hafa forgang umfram önnur mál á síðustu árum. Bæjaryfirvöld hér í Garði gera sér grein fyrir hvað það hefur mikla þýðingu að búa vel að skólunum.


Áætlunin gerir ráð fyrir að bæjarskrifstofurnar flytji í nýtt Þjónustu-og verslunarhús á árinu 2007. Gert er ráð fyrir að þjónusta verði aukin í nýju húsnæði m.a. með meiri viðveru byggingafulltrúa. Einnig þarf að bæta við í hlutastarf á skrifstofuna. Ennfremur þarf að huga að því að opnunartími skrifstofu verði lengdur frá því sem hann er nú.


Áætlunin gerir ráð fyrir að á hæðinni verði einnig Bæjarbókasafn og gert er ráð fyrir reksturskostnaði vegna þess. Bæjarstjórn á reyndar eftir að taka formlega ákvörðun um það mál. Ég set hér einnig fram þá hugmynd að í tengslum við bókasafnið verði komið upp upplýsingamiðstöð um Garðinn og þá þætti sem sveitarfélagið getur boðið ferðamönnum uppá.Möguleikar okkar eru miklar til að gera Garðinn að vinsælum ferðamannastað.

Samkvæmt áætluninni verða:
                 2007                           2008                                  2009
Tekjur:      kr. 484.200.000           kr. 504.170.000                kr. 524.490.000
Gjöld:       kr. 419.744.800            kr. 443.962.800                kr. 456.034.800

Rekstur málaflokka er því áætlaður:
                         2007                            2008                                      2009
                          91,7%                         90,5%                                    86,9%

Framkvæmdir:
Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að fjölgun íbúa haldi áfram,sem þýðir að áframhaldandi uppbygging verður á íbúðarhúsnæði.Við þurfum að halda áfram að útbúa götur og lóðir til þess að geta tekið á móti nýjum íbúum. Átakið sem hófst 2002 varðandi malbikun og lagningu gangstétta átti að ljúka nú árið 2006.Vegna þeirra miklu uppbyggingar sem verið hefur verður að halda áfram í nýju átaki.Áætlunin gerir ráð fyrir að áfram verði haldið af fullum krafti við að malbika og leggja gangstéttir auk annarra umhverfisframkvæmda s.s. á Garðskaga.


Það liggur fyrir að búið er að samþykkja að taka upp viðræður við Búmenn um  uppbyggingu öldrunarmála hér í Garði. Það þarf að vera forgangsverkefni á næstu árum að öll aðstaða fyrir aldraða verði bætt til muna. Félagslega aðstöðu vantar. Gert er ráð fyrir að uppbyggingin verði í nágrenni Garðvangs. Áætlað er að verja til þessa 50 milljónum á næstu þremur árum.


Gert er ráð fyrir að ljúka greiðslum vegna stækkunar leikskólans árið 2007 og er gert ráð fyrir 15 milljónum vegna þess. Heildarkostnaður er áætlaður 50 milljónir.


Starfandi er nefnd sem vinnur að tillögum um skipulag og uppbyggingu á húsnæði fyrir Gerðaskóla. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að varið verði á næstu þremur árum 80 milljónum til stækkunar og endurbóta á húsnæði Gerðaskóla.


Áætlunin gerir ráð fyrir að varið verði 5 milljónum árlega til uppbyggingar Skrúðgarðs. Bæjaryfirvöld þurfa að taka ákvörðun um það hvort sú uppbygging eigi sér stað í og við skrúðgarðinn í Bræðraborg eða á svæðinu við Sæborgu.


Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við fráveitumál hefjist á árinu 2007. Sýnt hefur verið fram á með rökum að hægt er að uppfylla öll ákvæði um fráveitumál á mun ódýrari hátt hér heldur en kröfur ráðuneytisins kveða á um. Áætlað er að verja á næstu þremur árum 40 milljónum til þess að fráveitumálum sveitarfélagsins verði komið í gott lag.


Á árinu 2007 er gert ráð fyrir að verja þurfi 10 milljónum til húsbúnaðarkaupa í nýtt skrifstofuhúsnæði og bæjarbókasafn.
Þessi áætlun gerir ráð fyrir því að hafinn verði undirbúningur að því að bæta aðstöðu fyrir æskulýðsstarfssemina. Gert er ráð fyrir á árunum  2008 og 2009 verði varið 20 milljónum til þessara mála.


Áætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2008 hefjist framkvæmdir við stækkun Íþróttamiðstöðvar. Á árinu verður varið 10 milljónum og sama upphæð árið 2009.
Búið er að ákveða breytingar á Byggðasafni m.a. að flytja skrifstofu og koma upp eldhúsi þar sem núverandi skrifstofa er. Einnig mun veitingasalur stækka við þá breytingu.


Hugsanlegt er að Vitavarðarhúsið breytist í gistiheimili, en viðræður eru nú í gangi varðandi það mál.
Eignfærðar fjárfestingar:

             2007                               2008                                    2009
              kr. 55.355.000               kr. 59.355.000                    kr. 54.355.000


Garður áfram í sókn.
Áætlunin gerir ráð fyrir að uppbyggingin haldi áfram hér í Garði. Á síðustu árum hafa verið stigin mörg stór og merkileg spor til framfara fyrir sveitarfélagið.
Þann 8. október á síðasta ári tóku Garðmenn stóra ákvörðun þegar 76% íbúanna töldu það betri kost að vera áfram sjálfstætt sveitarfélag heldur en verða hverfi í Reykjanesbæ. Sem betur fer hafa íbúar sveitarfélagsins trú á sinni heimabyggð og telja okkur eiga mikla og góða möguleika á að halda áfram uppbyggingu og framförum í Garði.


Eins og hjá öðrum sveitarfélögum er reksturinn þungur enda miðaður við að veita sífellt betri og betri þjónustu. Stór upphæð fer í að borga af lánum. Áætlunin gerir ráð fyrir að við þurfum ekki að auka skuldir heldur getum haldið í horfinu og að eftir árið 2008 lækki greiðslubyrði nokkuð. Árið 2008 lýkur greiðslum af lánum sem tekin voru vegna byggingar Íþróttamiðstöðvarinnar, sem á þeim tíma var langstærsta verkefnið sem Garður hafði ráðist í.
Eignarleg staða okkar er mjög góð bæði í fasteignum og hlutur okkar í Hitaveitu Suðurnesja er verulega góður.


Við sem höfum verið í forystu fyrir sveitarfélagið höfum mikla trú á kostum þess og að hér vilji fólk búa.Við trúum einnig að lág gjöld, bæði byggingaleyfisgjöld svo og fasteignaskattur hafi jákvæð áhrif hjá atvinnulífinu.


Ef við lítum til baka og berum saman við nútíðina sjáum við stórkostlegar framfarir á öllum sviðum.Fólk sem sækir okkur heim hefur á orði hvað Garðurinn sé huggulegt og myndarlegt sveitarfélag.


Framundan eru spennandi tímar.Uppbygging Menningasetursins að Útskálum er að komast á framkvæmdastig.Í tengslum við Menningarsetrið eru uppi áform um að byggja hótel.Verslunar-og þjónustuhús verður að veruleika,sem verður til þess að bæta alla þjónustu við íbúana. Hugmyndir eru uppi um að byggja 12 „herragarða“. Stækkun Gerðaskóla er framundan. Áframhaldandi bygging íbúðarhúsnæðis. Fegrun umhverfisins. Malbikun gatna, lagning gangstétta o.s.frv. Hugmyndir eru einnig uppi um að efla svæðið á Garðskaga til enn frekari sóknar til að laða að ferðamenn.


Hvert sem litið er sést að fólk er bjartsýnt á framtíð Garðsins.


Höldum áfram uppbyggingu og framförum okkur öllum til heilla sem búum í Garði og fyrir þá fjölmörgu sem eiga eftir að koma til okkar.

                          
Garði 1.mars 2006,
Sigurður Jónsson, bæjarstjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024