Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

350 nemendur í kuldanum?
Laugardagur 17. febrúar 2018 kl. 06:00

350 nemendur í kuldanum?

Eins og margir vita er DansKompaní í húsnæðisvanda. Samkvæmt svörum bæjarstjóra eftir fund okkar í júní eru hendur Reykjanesbæjar bundnar og geta þeir ekkert hjálpað okkur. Fram kom á fundinum að leigusali ætli ekki að framlengja leigusamning við DansKompaní auk þess að ekki stóð til boða að leigja þar stærra rými. Mér var því mjög svo brugðið þegar ég frétti, í nóvember sl., að Reykjanesbær ætli að leigja húsnæðið sem DansKompaní er að missa undir aðra tómstunda- og æskulýðsstarfsemi. Af hverju velur Reykjanesbær að útvega annarri æskulýðsstarfsemi húsnæði sem DansKompaní vill ekki missa?

Eða orðum þetta öðruvísi, af hverju býður bærinn ekki DansKompaní að leigja þetta tiltekna húsnæði þegar þeim býðst að fá það á leigu? Húsnæðið er sérhannað fyrir dansskólann. Það eina sem stendur út af er að við þurfum að bæta við okkur meira rými sem er til staðar og Reykjanesbær getur nú útvegað okkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leigusali umrædds húsnæðis sér sér meiri hag í að leigja Reykjanesbæ húsnæðið í heilu lagi frekar en núverandi leigutökum. Tómstunda- og æskulýðsstarf eins og DansKompaní á ekki að vera í samkeppni við bæinn um húsnæði. Mörgum foreldrum, nemendum og velunnurum DansKompaní var einnig brugðið og hef ég ósjaldan verið stoppuð á förnum vegi og spurð hvernig standi á þessu. Ég finn fyrir miklum stuðningi og sé hversu mikilvæg þessi gríðarlega metnaðarfulla starfsemi er. Málið er því afar brýnt fyrir DansKompaní og allan þann fjölda nemenda og foreldra sem hjá okkur eru.

Við höfum unnið af heilindum öll þessi ár, alltaf skilað góðu starfi, sýnum árangur og erum bæjarfélaginu til mikils sóma. Reykjanesbær hefur í þessu tilfelli tekið afgerandi stöðu með annarri æskulýðsstarfsemi. Ég hvet bæinn til að gæta jafnræðis. Með baráttuanda, frábæru starfsfólki, kraftmiklum nemendum, foreldrum og að ógleymdum velunnurum þá höfum við ávallt náð okkar markmiðum.

Núverandi markmið er að húsnæðismál DansKompaní leysist farsællega á næstu tveimur mánuðum til að starf skólans geti haldið hnökralaust áfram. Með þessu bréfi viljum við hjá DansKompaní vekja athygli á þeim vanda sem steðjar að ört stækkandi 350 nemenda skóla. Samfélagið í heild hefur hag af því að þetta mál leysist sem fyrst. Spurningin er því, ætlar bærinn að gæta jafnræðis og vinna með DansKompaní að lausnum í húsnæðismálum skólans? Við hlökkum til að hefja nýtt metnaðarfullt dansár í haust, eins og við erum þekkt fyrir.

Kveðja Helga Ásta Ólafsdóttir, skólastjóri DansKompaní.