Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

150% hækkun á milli ára hjá Kirkjugörðum Keflavíkur
Miðvikudagur 8. desember 2010 kl. 09:22

150% hækkun á milli ára hjá Kirkjugörðum Keflavíkur

Á aðventu og jólahátíð er hefð fyrir því að aðstandendur látinna skreyti leiði ástvina sinna með raflýsingu, margir leggja út í töluverðan kostnað við kaup á tilbúnum krossum eða láta útbúa slíka fyrir sig. Fjölmargir hafa fleiri en eitt leiði að hugsa um og um leið marga krossa sem leggja þarf út fyrir og setja upp árlega. Ástæða þessara skrifa minna er óskiljanleg hækkun á gjaldskrá við uppsetningu þessara ljósa hjá kirkjugörðum Keflavíkur. Fyrir ári kostaði uppsetning á einum krossi kr. 1800, í dag innheimtir verktaki á vegum kirkjunnar kr. 4500. Hækkunin nemur því kr. 2700 á milli ára. Það er hækkun upp á 150%.

Samkvæmt tölum sem birtar eru á gardur.is eru í kirkjugörðunum við Aðalgötu og í Leiru samtals 2341 leiði. Ef við gefum okkur að sett séu ljós á 70% leiða þá eru það 1639 leiði. Innkoma af þeim fjölda væri kr. 7.375.500. Kirkjugarðar Keflavíkur gefa þá skýringu á hækkun verðskrár að nú greiði notendur fyrir rafmagnið en að fram að þessu hafi það verið greitt af kirkjugarðinum, rafmagnið kosti 700 krónur auk virðisaukaskatts. Hér verður ekki rætt um verð án virðisaukaskatts, því almennur neytandi veit sem er að hann á alltaf að fá upplýsingar um verð með virðisaukaskatti, ekki án. Rafmagnið kostar því samkvæmt þeirra upplýsingum kr. 879. Ef við gefum okkur áfram að krossar verði á 1639 leiðum fara kr. 1.440.681 í rafmagnsnotkun. Mismunurinn sem er kr. 5.934.819 rennur væntanlega til verktakans og kirkjugarðanna. Fjöldi leiða og krossa er kannski ekki aðalmálið í þessu samhengi, upphæðin lækkar þá hlutfallslega ef þær eru fjarri þeim fjölda sem um er að ræða. Kjarni málsins er að hækkunin nemur hundraðogfimmtíu prósentum. Ef við tökum frá rafmagnið og reiknum hækkunina á uppsetningunni nemur hún kr. 1821 á milli ára sem er 101%.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég velti líka fyrir mér hvort orkunotkun á litlum 12v ljósakrossum sé virkilega svona mikil? Í svörum kirkjunnar sem birtust í grein á vf.is í dag kemur fram að nú sé boðið upp á meiri og betri þjónustu en áður þekktist og því sé eðlilegt að innheimta meira. Ég kem ekki auga á aukna þjónustu nema það að nú er tíminn sem ljósin loga lengri, lýsing var nú í boði frá fyrsta sunnudegi í aðventu í stað þess þriðja. Greiða þá þeir sem ekki settu strax upp ljósin hlutfallslega minna rafmagn? Þvert á móti hefur þjónusta verð skert talsvert á milli ára, miðað við hvaða kostnað notendur hafa nú tekið á sig. Til samanburðar má nefna að í kirkjugarðinum við Njarðvíkurkirkju greiða notendur kr. 2000 fyrir hverja ljósaskreytingu. Það er því 125% dýrara að skreyta leiði í Keflavík en Njarðvík.

Sóknarbarn í Keflavík.