1000 andlit MS - með lóð um ökklana
Máttarminnkun/kraftleysi í fótum er eitt einkenni MS sjúkdómsins. Máttarminnkunni má líkja við það að lóð eða sandpoki er settur um ökklann. Þyngslin valda því að erfitt getur verið að lyfta fótum og hætt er við að göngulag verði óeðlilegt. Eins er meiri hætta á að reka tærnar í og detta og slasa sig. Þessi einkenni geta verið viðvarandi en einnig verið tímabundin, allt eftir framgangi sjúkdómsins.
MS er sjúkdómur í miðtaugakerfi (heila og mænu). Sjúkdómurinn einkennist af köstum með bata á milli. Kast er oftast tímabundin versnun á einkennum eða ný einkenni láta á sér kræla. Þreyta er það einkenni sem flestir finna alltaf fyrir. Einkenni þeirra sem eru með MS (MULTIPLE SCLEROSIS) fara eftir því hvaða taugar verða fyrir skaða, hvaða hluta heilans eða mænunnar sjúkdómurinn ræðast á hverju sinni. MS-sjúkdómurinn er oft kallaður sjúkdómurinn með 1000 andlit vegna þess að einkennin eru svo mismunandi eftir því hvað taugar verða fyrir skaða. Dofi er annað algengt einkenni sem og sjóntruflanir, spasmi, jafnvægistruflanir og verkir.
Enn hefur ekki fundist lækning við MS og orsök sjúkdómsins er ekki þekkt þó nokkrar kenningar séu á lofti. MS er ekki arfgengur sjúkdómur og er ekki banvænn. Engin lyf lækna MS, en á undanförnum 15-20 árum hafa komið fram svo kölluð bremsulyf sem hægja á framgangi sjúkdómsins með því að stöðva köst.
Á Íslandi eru um 430 einstaklingar með MS og flestir greinast fyrir 35 ára aldur. MS-félag Íslands er hagsmunafélag MS-sjúklinga og aðstandenda þeirra. Félagið stendur fyrir öflugu kynningarstarfi, heldur námskeið fyrir félagsmenn og aðstandendur, stendur fyrir fræðslufyrirlestrum og útgáfu blaða og bæklinga. MS-félagið reiðir sig á stuðning almennings, fyrirtækja og líknarfélaga til að geta haldið úti starfsemi sinni. Sjá nánar msfelag.is
Nú leitum við eftir stuðningi þínum við okkar góða og þarfa starf. Með því að hringja í eitt af eftirtöldum númerum styrkir þú félagið um ákveðna fjárhæð:
901 5010 – 1000 kr. styrkur
901 5030 – 3000 kr. styrkur
901 5050 – 5000 kr. styrkur
Stuðningur ykkar eflir okkar starf!
Berglind Guðmundsdóttir formaður MS-félagsins