,,Skógar”Björn á Þing
Ég skrifa hér með nokkur orð til stuðnings Birni B. Jónssyni sem stefnir á annað sæti í framboði Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Það kom fáum á óvart sem fylgst hafa með Birni á síðustu árum að hann gæfi kost á sér á Alþingi. Hann hefur á síðustu árum vakið á sér athygli fyrir góð störf í þágu skógræktar hér á landi sem og í tengslum við störf sín fyrir Ungmennafélag Íslands.
Ég kynntist Birni fyrir nokkrum árum á þeim tíma er hann ásamt góðu fólki vann að undirbúningi Suðurlandsskóga. Á þeim tíma datt fáum í hug að það tækist að stofna til slíks verkefnis hér á Suðurlandi, en það tókst og er ekki á neinn hallað þegar ég segi að það hafi Björn keyrt í gegn með mikilli útsjónasemi og elju. Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga hefur Björn vaxið mjög og verið í fararbroddi skógræktar hér á landi, stutt við nýjar hugmyndir og þróun í skógrækt á landinu öllu. Má þar nefna tækniþróun í gróðursetningu og grisjun, fræðsluverkefnið Grænni skóga, gæðamál trjáplantna og frystigeymslu þeirra. Einnig má nefna framlag hans til Hekluskóga en hann hefur átt stóran þátt í að afla fjár til undirbúnings þess verkefnis. Störf Björns fyrir skógræktargeirann sýna í hnotskurn getu hans til að leysa ólík verkefni og setja sig inn í flókin mál.
Helsti kostur Björns er að hann hefur einstaka hæfileika til að vinna með fólki og laða það besta fram í samstarfsfólki sínu. Hann er hugmyndaríkur, heiðarlegur, sanngjarn, með góða innsýn inn í margvísleg málefni og snöggur að greina hismið frá kjarnanum. Slíkt fólk á heima á Alþingi Íslendinga.
SkógarBjörn á Þing!
Hreinn Óskarsson
Skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi